Fótbolti

Birkir skoraði tvö og Molde varð meistari

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Birkir Már Sævarsson í leik með Brann.
Birkir Már Sævarsson í leik með Brann. Nordic Photos / Getty Images
Birkir Már Sævarsson átti stóran þátt í því að Molde tryggði sér í kvöld norska meistaratitilinn en hann skoraði tvö mörk í 6-3 sigri Brann á Rosenborg í kvöld.

Tap Rosenborg þýðír að liðið á ekki lengur möguleika á að ná Molde að stigum sem þar með er orðið Noregsmeistari þegar tvær umferðir eru óleiknar.

Úrslitin sannarlega ótrúleg en Birkir skoraði fyrsta mark leiksins á 9. mínútu. Hann skoraði svo aftur á 58. mínútú og kom þá sínum mönnum í 5-1 forystu. Rosenborg skoraði síðustu tvö mörkin í lok leiksins en sigur Brann var vitanlega aldrei í hættu.

Birkir spilaði allan leikinn í kvöld en Brann er í fjórða sæti deildarinnar með 45 stig.

Ole Gunnar Solskjær hefur náð ótrúlegum árangri á sínu fyrsta ári sem þjálfari Molde og ljóst að það verður erfitt fyrir liðið að halda í hann. Solskjær hefur verið orðaður við nokkur störf í Englandi en hann var lengi leikmaður og þjálfari hjá Manchester United.

Molde varð í dag meistari í fyrsta sinn í 100 ára sögu félagsins. Sjö sinnum hefur liðið hafnað í öðru sæti efstu deildar, þrívegis í þriðja sæti og tvisvar bikarmeistari. En aldrei Noregsmeistari fyrr en í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×