Körfubolti

Íslendingarnir skoruðu 60 af 93 stigum Sundsvall

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jakob Örn Sigurðarson og Hlynur Bæringsson.
Jakob Örn Sigurðarson og Hlynur Bæringsson. Mynd/Valli
Íslendingarnir þrír voru áberandi í fimm stiga útisigri Sundsvall Dragons í Íslendingaslag á móti Jämtland Basket, 93-88, í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld. Íslensku leikmennirnir í Sundsvall skoruðu 60 af 93 stigum sínum liðs.

Pavel Ermolinskij var með 23 stig, 8 fráköst og 7 stosðendingar, Jakob Örn Sigurðarson var með 23 stig og 6 stoðsendingar og Hlynur Bæringsson var með 14 stig og 10 fráköst. Brynjar Þór Björnsson skoraði 6 stig fyrir Jämtland.

Sundsvall var að vinna sinn þriðja leik í röð en þetta var hinsvegar þriðja tapið í röð hjá Brynjari Þór og félögum í Jämtland Basket.

Jakob varð sjóðheitur í fyrsta leikhluta og var þá með 11 stig og 3 stoðsendingar. Sundsvall komst í 9-0, 13-1 og 18-5 í upphafi leiks en var síðan 34-23 yfir eftir fyrsta leikhlutann.

Brynjar Þór Björnsson skoraði sex stig í öðrum leikhlutanum sem Jämtland vann 26-18 en Brynjar endaði fyrri hálfleikinn á því að setja niður þrist og minnka muninn í 49-52.

Jämtland komst yfir í upphafi seinni hálfleiks en leikurinn hélst síðan jafn og spennandi það sem eftir var leiksins. Sundsvall var 73-68 yfir fyrir lokaleikhlutann og var síðan sterkari á spennandi lokamínútum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×