Körfubolti

Helgi Már og félagar unnu Sundsvall eftir þríframlengdan leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helgi Már Magnússon.
Helgi Már Magnússon. Mynd/Daníel
Helgi Már Magnússon og félagar í 08 Stockholm HR héldu sigurgöngu sinni áfram í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld og unnu 96-90 sigur á Sundsvall Dragons í mögnuðum þríframlengdum leik í Stokkhólmi. Þetta var sjötti sigur 08 Stockholm í röð og liðið komst með honum upp fyrir Sundsvall í töflunni.

Helgi Már var með 7 stig, 14 fráköst og 4 stoðsendingar í leiknum en það dugði ekki Sundsvall var allir íslensku landsliðsmennirnir áttu góðan leik. Pavel Ermolinskij var með 28 stig, 13 fráköst og 4 stoðsendingar, Jakob Örn Sigurðarson skoraði 23 stig og Hlynur Bæringsson var með 19 stig, 21 frákast og 3 stoðsendingar. Þeir töpuðu hinsvegar allir sex boltum hver og það vóg þungt í lokin.

08 Stockholm HR vann fyrsta leikhlutann 23-14 og hélt frumkvæðinu út hálfleikinn þótt að Sundsvall hafði náð að minnka muninn í þrjú stig fyrir hálfeik. Leikurinn var mjög jafn í seinni hálfleiknum en 08 Stockholm var alltaf skrefinu á undan og síðan í góðri stöðu þegar lítið var eftir.

Sundsvall var fimm stigum undir þegar hálf mínúta var eftir en jafnaði leikinn með tveggja stiga körfu frá Pavel og þriggja stiga körfu frá Jakobi. Helgi og Jakob fengu síðan báðir tækifæri til að skora sigurkörfuna en bæði skot geiguðu og því varð að framlengja.

08 Stockholm HR náði aftur fimm stiga forskot í framlengingunni en Sundsvall kom aftur til baka í lokin og Jakob tryggði Drekunum aðra framlengingu með því að setja niður þriggja stiga körfur átta sekúndum fyrir leikslok.

Pavel byrjaði síðan aðra framlenginguna á því að setja niður þriggja stiga körfu en leikmenn 08 svöruðu með tveimur þriggja stiga körfum og komust í 85-82. Hlynur Bæringsson jafnaði leikinn með því að setja niður tvö víti og sá til þess að framlengja varð í þriðja sinn.

08 Stockholm HR náði enn á ný ágætu forskot í þriðju framlengingunni og tókst að þessu sinni að halda forystunni og tryggja sér sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×