Fótbolti

Bikarleikur Ajax og AZ fer fram fyrir luktum dyrum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Esteban Alvarado sparkar hér niður áhorfandann sem réðst á hann fyrr í mánuðinum.
Esteban Alvarado sparkar hér niður áhorfandann sem réðst á hann fyrr í mánuðinum. Nordic Photos / AFP
Hollenska knattspyrnusambandið hefur ákveðið að leikur Ajax og AZ Alkmaar í bikarkeppninni fari aftur fram en fyrir luktum dyrum.

Leik var hætt eftir að þjálfari AZ ákvað að kalla lið sitt af velli þar sem að markvörður liðsins hafði fengið rautt spjald fyrir að sparka niður áhorfanda sem réðst á hann.

Atvikið vakti mikla athygli en téður áhorfandi hafði þegar verið bannaður frá heimaleikjum Ajax vegna fyrri brota. Var félagið sektað um tíu þúsund evrur fyrir að gera ekki nóg til að koma í veg fyrir atvikið.

Staðan í leiknum var 1-0 fyrir Ajax en Jóhann Berg Guðmundsson var meðal varamanna AZ í leiknum. Rauða spjaldið sem markvörðurinn fékk var dregið til baka og þarf hann því ekki að taka út leikbann vegna þessa.

Leikurinn fer fram þann 19. janúar næstkmoandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×