Fótbolti

Einn af hundrað ríkustu mönnum heims á nú Mónakó-liðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dmitry Rybolovlev.
Dmitry Rybolovlev. Mynd/Nordic Photos/Getty
Rússneski milljarðamæringurinn Dmitry Rybolovlev á nú tvo þriðju í franska félaginu Mónakó og hefur lofað að dæla peningum í félagið sem má muna sinn fífil fegurri. Mónakó er nú í neðsta sæti í frönsku b-deildinni með aðeins einn sigur í átján leikjum.

Mónakó varð síðast franskur meistari árið 2000 og endaði síðan í öðru sæti í Meistaradeildinni árið 2004. Eiður Smári Guðjohnsen lék með liðinu veturinn 2009-2010 en liðið féll síðan úr frönsku úrvalsdeildinni í vor.

Dmitry Rybolovlev er einn af hundrað ríkustu mönnum heims og eignir hans eru metnar á 9,5 milljarða dollara. Hann varð milljarðarmæringur á sölu á áburðar-vörum í heimalandi sínu.

Rybolovlev hefur lofað því að dæla í það minnsta 130 milljónum dollara inn í félagið á næstu fjórum árum en til að byrja með þarf hann að sjá til þess að félagið falli ekki úr frönsku b-deildinni í vor.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×