Fótbolti

Ajax-bullan fékk sex mánaða fangelsisdóm

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Esteban og Wesley eigast hér við.
Esteban og Wesley eigast hér við. Nordic Photos / AFP
Dómskerfið í Hollandi er greinilega skjótvirkt því fótboltabullan sem réðst á markvörð AZ Alkmaar þann 21. desember síðastliðinn hefur verið dæmd í sex mánaða fangelsi.

Umræddur maður er nítján ára gamall og var nefndur Wesley van W. í dómsskjölum. Hann hljóp inn á völlinn í leik Ajax og AZ í hollensku bikarkeppninni og ætlaði að ráðast á Esteban Alvarado, markvörð AZ. Alvarado svaraði fyrir sig og sparkaði manninn niður.

Réttarhöldin fóru fram í gær og fór saksóknari fram á tíu mánaða fangelsisdóm. Niðurstaðan var hins vegar sex mánaða dómur, þar af eru tveir mánuðir skilorðsbundnir í tvö ár.

Wesley þarf þar að auki að láta vita af sér fyrir hvern einasta leik með Ajax, AZ og hollenska landsliðinu á næstu tveimur árum.

Dómari leiksins ákvað að reka Alvarado af velli fyrir að sparka í áhorfandann en vegna þess ákvað þjálfari AZ, Gertjan Verbeek, að taka lið sitt af velli. Leikurinn var flautaður af en rauða spjaldið hefur síðan þá verið dregið til baka.

Staðan var þá 1-0 fyrir Ajax en leikurinn verður leikinn aftur frá fyrstu mínútu fyrir luktum dyrum í næsta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×