Innlent

Ölvaður ökumaður festi bíl og hringdi á lögguna

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni.

Lögreglumenn á Selfossi höfðu í nægu að snúast síðastliðið föstudagskvöld eftir að talsverð snjókoma olli ófærð. Nokkuð var um að leitað væri til lögreglu vegna ökutækja sem sátu föst í snjó.

Tveir voru kærðir fyrir ölvunarakstur um helgina. Í öðru tilvikinu hringdi grunaður ökumaður til lögreglu og óskaði eftir aðstoð þar sem hann hefði fest bifreið sína við Reykholt í Biskupstungum. Þegar lögreglumenn komu á staðinn kannaðist enginn við að hafa ekið bifreiðinni sem hafði farið útaf veginum. Þrír karlmenn voru handteknir í þágu rannsóknarinnar og yfirheyrðir. Málið er í rannsókn.

Þá voru tveir ofurölvaðir karlmenn handteknir utan við Skóbúð Selfoss á Austurvegi seint á miðvikudagskvöld. Þeir vöktu athygli vegna áfloga og ölvunarláta. Við leit á öðrum mannanna fundust nokkur grömm af hassi. Þeir voru vistaðir í fangaklefa og yfirheyrðir þegar runnið var af þeim. Mál þeirra verður sent til ákæruvalds til ákvörðunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×