Innlent

Nýr kjarasamningur í nótt

JMG skrifar
Búist er við að nýir kjarasamningar til þriggja ára náist í kvöld eða nótt. Sáttatónn er í forsvarsmönnum Samtaka Atvinnulífsins og Alþýðusambandsins sem nú funda í Karphúsinu.

Allt annað hljóð var í Gylfa Arnbjörnssyni og Vilmundi Jósefssyni í dag eftir ósætti undanfarnar vikur. „Við höfum verið að bera saman bækur okkar í morgun og ákváðum að freista þess að það væri kannski okkar ábyrgð fólgin í því í ljósi þessara aðstæðan að gera lokatilraun til þess að ná þessu saman í sátt og hér gæti fæðst einhver samningur og ætlum að taka okkur daginn og kvöldið í að reyna að ná saman, sagði Gylfi Arnbjörnsson.

Hann segir að ansi djúp gjá hafi myndast í samskiptum milli samtakanna á undanförnum vikum og því hafi verkalýðshreyfingin sett í gang vinnu að verkfallsboðun. Hins vegar verði nú reynt að ná málamiðlun beggja aðila. Skilyrði ASÍ sé fyrst og fremst að launahækkanir þessa árs séu fastar í hendi.

„Jafnframt er engin launung á því að bæði vildum við sjálf hér áður og atvinnurekendur lagt á það áherslu að stefna að þriggja ára samningi og við höfum alltaf sagt að ef að efni í þeim samningi er ásættanlegt þá getum við skoðað það," segir Gylfi

Vilmundur Jósefsson formaður Samtaka Atvinnulífsins er bjartsýnn á viðræðurnar í kvöld. „Það þarf í rauninni bara að við þurfum að setjast yfir hlutina og jafna þann ágreining sem hugsanlega er í einhverjum málum og með því að við séum allir saman stilltir inn á það að klára málin þá á þetta að takast," segir Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins.

Vilmundur segir að samtökin séu tilbúin í þriggja ára samningin eftir ásættanleg vilyrði frá ríkisstjórninni. Vilmundur á von á vöffluboði í Karphúsinu í nótt ef vel gengur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×