Innlent

Forseti Slóveníu á Bessastöðum

Forseti og forsetafrú Slóveníu koma til hátíðlegrar móttöku á Bessastöðum
Forseti og forsetafrú Slóveníu koma til hátíðlegrar móttöku á Bessastöðum Mynd: Anton Brink
Opinber heimsókn forseta og forsetafrúar Slóveníu til Íslands hófst á Bessastöðum klukkan hálf þrjú.

Forseti Slóveníu, dr. Danilo Türk, og eiginkona hans, frú Barbara Miklic Türk, munu dvelja hér í tvo daga. Með forsetanum koma þrír ráðherrar í ríkisstjórn Slóveníu, frú Darja Radic efnahagsráðherra, frú Irma Pavlinic Krebs, ráðherra opinberrar stjórnsýslu, og Roko Žarnic umhverfis- og skipulagsmálaráðherra auk embættismanna. Þá fylgja forseta Slóveníu viðskiptasendinefnd, með fulltrúum ríflega 20 slóvenskra fyrirtækja, og blaðamenn.

Við hátíðlega athöfn á Bessastöðum tóku íslensku forsetahjónin ásamt ráðherrum úr ríkisstjórn Íslands og embættismönnum á móti hinum erlendu gestum. Í kjölfarið fylgir viðræðufundur forseta landanna. Þeir munu síðan ræða við blaðamenn klukkan rúmlega hálf fjögur.

Frá Bessastöðum heldur forseti Slóveníu í heimsókn til Alþingis. Þar verður hann ávarpaður úr forsetastóli en síðan munu forsetinn og ráðherrar eiga fund með fulltrúum stjórnmálaflokka á Alþingi og forseta Alþingis, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur. Hinir slóvensku ráðherrar munu jafnframt eiga sérstaka fundi með íslenskum starfsbræðrum sínum síðdegis þriðjudaginn 3. maí.

Að kvöldi fyrri dags hinnar opinberu heimsóknar bjóða forseti Íslands og forsetafrú til hátíðarkvöldverðar á Bessastöðum til heiðurs forseta Slóveníu og forsetafrú.

Þetta kemur fram á vef forsetaembættisins.

Heimsóknardagana mun Barbara Mikli? Türk, forsetafrú Slóveníu, meðal annars heimsækja Hönnunarsafn Íslands, vinnustofur ungra listamanna, Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur í Hafnarhúsi og handritasýninguna í Þjóðmenningarhúsinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×