Innlent

Vill minnast 25 ára afmælis leiðtogafundarins

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Frá leiðtogafundinum í Höfða.
Frá leiðtogafundinum í Höfða.
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, vill að borgarstjórn Reykjavíkur standi fyrir viðburðadagskrá í tilefni af því að í október er aldarfjórðungur liðinn frá leiðtogafundi Ronalds Reagans Bandaríkjaforseta og Mikhaíls Gorbatsjoffs, leiðtoga Sovétríkjanna, í Reykjavík. Samkvæmt tillögu sem Kjartan lagði fram á borgarstjórnarfundi í dag verður borgarráði falið að skipa starfshóp til að annast verkefnið.

„Leiðtogafundur Reagans og Gorbatsjoffs 11. - 12. október 1986 í Höfða er talinn hafa markað þáttaskil í kalda stríðinu og þar með í mannkynssögunni. Mikilvægt er að halda minningunni um þennan stórviðburð stöðugt á lofti og nýta hana jafnframt til að kynna Reykjavík sem ákjósanlegan stað fyrir slíka leiðtogafundi og alþjóðlegt ráðstefnuhald, sem tengist friðar- og öryggismálum," segir Kjartan í greinagerð sem fylgir tillögu hans.  

Kjartan segir að sú landkynning, sem leiðtogafundurinnn 1986 hafði í för með sér, hafi verið ómetanleg fyrir íslenska ferðaþjónustu og þeirra áhrifa gæti enn. Með því að minna reglulega á þýðingu leiðtogafundarins, sé stuðlað að því að festa Reykjavík í sessi sem áhugaverðan viðkomustað fyrir ferðamenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×