Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, segir að Frakkinn Patrice Evra ætli ekki að draga til baka ásakanir sínar á hendur Úrúgvæmanninum Luis Suárez. Evra sagði Suárez hafa verið með kynþáttafordóma í garð hans á meðan leik Liverpool og United stóð um helgina.
Patrice Evra fullyrti í viðtali eftir leikinn að menn gætu bara skoðað sjónvarpsupptökur frá leiknum og þar kæmi þetta vel í ljós því að Luis Suárez hafi kallað hann ítrekað "niggara" á meðan einvígi þeirra stóð inn á vellinum.
Sky Sports hefur farið yfir allar upptökur sínar frá þessum leik en finnur ekkert sem styður orð Frakkans en Ferguson hefur það eftir leikmanni sínum að hann standi við fyrri orð sín.
„Ég hef talað við Patrice og hann er harður á því að fylgja þessu máli eftir. Þetta er ekki auðvelt mál fyrir neinn okkar. Það vita allir að það liggur mikil ábyrgð á leikmönnum Manchester United og Liverpool að haga sér rétt inn á vellinum. Patrice tók því illa sem var sagt við hann en núna er málið bara í hödnum aganefndarinnar," sagði Sir Alex Ferguson.
Sky Sports finnur engar myndir sem styðja ásakanir Patrice Evra
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið



„Meira að hugsa um hvort ég geti unnið heilan vinnudag“
Íslenski boltinn






„Holan var of djúp“
Körfubolti
