Innlent

„Þýska ófreskjan" komin til Íslands

Einn stærsti vaxtaræktarmaður heims, Markus Rühl, er í heimsókn á Íslandi. Markus er margverðlaunaður vaxtaræktarkappi, gengur undir nafninu „Þýska ófreskjan" og er kominn hingað til lands til að kynna fæðubótarefni í Hafnarfirði.

„Þessi nafngift, „Þýska ófreskjan", kom upphaflega frá bandarísku dagblaði. Ég hef reynt að standa undir þessari nafngift," sagði Markus þegar fréttamaður Stöðvar 2 hitti hann í dag.

Markus er gestu verslunarinnar Vaxtarvörur í Hafnarfirði þar sem hann kynnir Ultimate fæðubótarefnin. Hann segir líkamsræktina lífsstíl.

„Ég fæ mjög mikið út úr því að æfa og ég vil ögra sjálfum mér. Þetta er það sem vaxtarrækt gengur út á: að fara í ræktina á hverjum degi."

Markus segist hafa kynnt sér land og þjóð áður en hann kom til landsins. Ísland sé frægast fyrir veðrið og því hafi hann verið glaður þegar snjónum kyngdi niður í dag.

Ægir Gunnþórsson, verslunarsstjóri í Vaxtarvörum, sagði ekki auðvelt verk að taka á móti trölli eins og Markusi. „Hann þarf að borða á tveggja tíma fresti. Fórum á Kentucky í hádeginu í gær og tveim tímum síðar fórum við á American Style og hann borðaði þrjá rétti."

Markus mun árita plaköt og bjóða fólki að taka af sér myndir með honum í verslun Vaxtarvara í Hafnarfirði til átta í kvöld.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×