Innlent

Áhersla lögð á að eyða óvissunni

Oddný Sturludóttir
Oddný Sturludóttir
Menntaráð Reykjavíkurborgar leggur áherslu á skjót vinnubrögð til að hægt verði að eyða óvissu um framtíðarskipulag skólamála í borginni.

Þetta segir Oddný Sturludóttir, formaður menntaráðs, í samtali við Fréttablaðið, en hugmyndir um sameiningu skólastofnana og frístundaheimila Reykjavíkurborgar voru kynntar fyrir stjórnendum leikskóla, grunnskóla og frístundastarfs í gær.

Oddný sagði að stjórnendur hefðu tekið tillögunum vel.

„Þau hafa verið ánægð með hvernig við vinnum þetta þó að þau séu eðlilega uggandi um framtíðina. Það er mikið breytingaferli fram undan og þess vegna munum við vinna bæði hratt og vel." Oddný bætir því við að ekki komi henni á óvart þótt beygur sé innan raða stjórnenda.

„Það er ofureðlilegt þar sem breytingar standa fyrir dyrum. Stjórnendur hafa hins vegar fengið upplýsingar um gang mála reglulega og hafa sjálfir komið fram með gagnlegar ábendingar."

Nú fer fram rýnihópagreining en í næstu viku verða stjórnendur aftur kallaðir til samráðs. Stefnt er að því að skipulagsbreytingar liggi fyrir í þessum mánuði. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×