Innlent

Komumst ekki undan tugmilljarða skuldbindingum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Bjarni Benediktsson útskýrði afstöðu sína í Valhöll í dag
Bjarni Benediktsson útskýrði afstöðu sína í Valhöll í dag Mynd/Pjetur
Íslenska þjóðin getur ekki komist undan tugmilljarða skuldbindingum í Icesave málinu, sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á fjölmennum fundi í Valhöll í dag. Hann sagði að sú niðurstaða sem nú hefði fengist í samningaferlinu væri ekki fengin með hótunum Breta og Hollendinga gagnvart Íslendingum. Þær hafi vissulega verið hafðar uppi á fyrri stigum málsins, til dæmis með hryðjuverkalögum sem sett voru á Ísland og innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þegar leið að endurskoðun efnahagsáælun Íslands.

Bjarni sagði að sú niðurstaða sem hefði nú fengist í Icesave væri mun betri en þau samningstilboð sem áður hefði borist. Bjarni sagðist telja að réttarstaða Íslendinga í málinu væri góð. Það væri þess vegna sem Íslendingar hefðu náð betri samningum í málinu. Hins vegar væri ekki á vísan að róa í dómsmáli. Ef dómsmál myndi tapast gæti skuldbinding Íslendinga í málinu orðið mun hærri en ef samið yrði. Þá sagði Bjarni að ekki væri hægt að gera raunhæfar væntingar til þess að hægt yrði að ganga aftur að samningaborðinu ef þessum samningi sem nú liggur á borðinu yrði hafnað. Viðsemjendur hefðu gert saminganefnd Íslands ljóst að þetta væri lokatilboð.

Þá sagði Bjarni að forsætisráðherra og fjármálaráðherra gætu ekki þakkað sjálfum sér að betri samningar náðust. Það væri fyrst og fremst íslensku þjóðinni að þakka sem hefði hafnað fyrri samningi í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Loks sagði Bjarni að eignasafn Landsbankans væri ekki eins veikt og helstu andstæðingar Icesave samningsins héldu fram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×