Innlent

Mátti ekki gefa blóð vegna kynhneigðar sinnar

Það var á miðvikudaginn síðastliðinn sem Blóðbankabíllinn heimsótti Fjölbrautarskólann í Garðabæ. Úlfar Logason, 18 ára hinseginn nemi við skólann, lagði þá leið sína út í bílinn, enda langaði hann að gerast blóðgjafi.

„Mig langaði bara að gera eins og pabbi minn. Hann hefur gefið blóð síðan hann var 18 ára og þegar ég varð 18, þá ætlaði ég að gefa blóð og sá þetta tækifæri," segir Úlfar.

Það gilda hins vegar þónokkrar reglur um blóðgjafir. Til dæmis þarf að fresta blóðgjöf í ákveðinn tíma eftir ýmis konar veikindi eða aðgerðir. Og svo eru ákveðin atriði sem útiloka mann hreinlega sem blóðgjafa. Eitt þeirra er ef einstaklingur er karlmaður og hefur haft samfarir við sama kyn.

„Ég vissi að þessar reglur hefðu verið í gildi, en ég vissi ekki hvort það væri ennþá í gangi. Ég fór og spurðist fyrir um hvort ég mætti gefa og fékk neitun," segir Úlfar. Hann segir reglurnar fáránlegar.

„Það er árið 2011. Þetta á ekki að vera lengur í gangi," segir Úlfar og bætir við að það þurfi að breyta reglunum.

Úlfar segir samskipti sín við starfsfólk Blóðbankabílsins þó hafa verið góð, og hann hafi fengið þau svör að betra væri að hafa fleiri reglur en færri. Úlfar hefur sent Sveini Guðmundssyni, yfirlækni blóðbankans, fyrirspurn vegna málsins. Hann varð enda fyrir vonbrigðum með að mega ekki gera eins og pabbi sinn, kynhneigðar sinnar vegna.

„Þetta er bara mjög asnalegt. Þessar reglur eru mjög særandi," segir Úlfar að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×