Viðskipti innlent

Þrír sendir í frí vegna verðsamráðsmálsins

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Húsasmiðjan er grunuð um verðsamráð ásamt Byko og byggingavöruversluninni Úlfinum. Mynd/ Pjetur.
Húsasmiðjan er grunuð um verðsamráð ásamt Byko og byggingavöruversluninni Úlfinum. Mynd/ Pjetur.
Þrír starfsmenn Húsasmiðjunnar hafa verið sendir í tímabundið leyfi frá störfum vegna verðsamráðsmálsins. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hafa efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra og Samkeppniseftirlitið tvisvar með stuttu millibili handtekið fjölda fólks og gert húsleitir vegna meints verðsamráðs Húsasmiðjunnar, BYKO og Úlfsins byggingavöruverslunar.

Í tilkynningu frá stjórn Húsasmiðjunnar segir að málið sé litið mjög alvarlegum augum. Sérfræðingar í samkeppnisrétti hafi verið ráðnir til að taka út alla verkferla fyrirtækisins varðandi verðkannanir og tilboðsgerð. Sú vinna sé þegar hafin. Einnig hafi Húsasmiðjan sent Samkeppniseftirlitinu erindi þar sem fyrirtækið bjóði fram alla þá aðstoð sem það geti veitt við rannsókn málsins og heiti fullu samstarfi við rannsóknina.

Þótt fyrrgreindir starsmenn hafi verið leystir frá störfum leggur stjórn Húsasmiðjunnar áherslu á að umræddir starfsmenn séu saklausir uns sekt þeirra hefur verið sönnuð. Stjórn Húsasmiðjunnar segist telja nauðsynlegt að grípa til fyrrgreindra ráðstafana en hún bíði niðurstöðu rannsóknar sem enn sé á frumstigi. Komi nýjar upplýsingar fram meðan á rannsókn málsins standi muni stjórnin bregðast við þeim á viðeigandi hátt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×