Erlent

Mótorhjólagengin fylla dönsk fangelsi

Meðlimir mótorhjólagengja í Danmörku fylla nú fangelsin svo horfir til vandræða. Danska lögreglan hefur síðustu misserin hert aðgerðir sínar gegn mótorhjólagengjum á borð við Vítisengla, Bandidos og Outlaws og nú er svo komið að 320 meðlimir gengjanna sitja á bak við lás og slá.

Þetta þýðir að fangelsin eru að verða yfirfull sem skapar álag á starfsfólk og á þá fanga sem veikari eru fyrir, að því er fram kemur í frétt danska ríkisútvarpsins.

Verst er ástandið á Sjálandi þar sem flestir klíkumeðlimirnir hafa verið vistaðir og segir talsmaður fangavarða á Sjálandi að aðstaðan til að vista þá sé engan vegin fullnægjandi. Í sjálenskum fangelsum er talið að þriðjungur allra fanga hafi tengsl við mótorhjólasamtök.

Þeir eru sagðir hafa tekið völdin í fangelsunum og nú er svo komið að fangar sem ekki eru í klíkunum þurfa að borga meðlimunum sérstakt gjald fyrir að fá að framkvæma hversdagslega hluti á borð við að fara í líkamsrækt eða jafnvel á klósettið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×