Erlent

Einn minnsti fyrirburi veraldar kom öllum á óvart

Nýleg mynd af Madeline Mann.
Nýleg mynd af Madeline Mann. mynd/AP
Hin 22 ára gamla Madeline Mann er búsett í Illinois-fylki í Bandaríkjunum. Hún er heiðursnemandi við háskólann í Augustana. Hún fæddist í júní árið 1989 - hún var minnsti fyrirburi veraldar.

Madeline var rúmlega 280 grömm að þyngd þegar hún fæddist og passaði ágætlega í meðalstórann lófa. Meðgöngualdur hennar var 27 vikur. Lungu hennar og önnur líffæri voru ekki nógu þroskuð til að starfa.

Madeline þurfti að vera í öndunarvél í tvo mánuði og var í fjóra mánuði á spítalanum. Slangan sem komið var fyrir í barka Madeline var þynnri en spagettístöng.

Hún var tekin með keisarskurði því móðir hennar þjáðist af meðgöngueitrun en sjúkdómurinn einkennist af afar háum blóðþrýstingi.

Það blæddi lítillega inn á heila Madeline en það er algengt hjá fyrirburum. Blæðingin virðist ekki hafa haft nein áhrif á hana.

Myndin var tekin stuttu eftir fæðingu Madeline.mynd/AP
Dr. Jonathan Muraskas hjá Háskólasjúkrahúsinu í Maywood í Illionois segir að tilfelli Madeline vera afar sérstakt og að það sé í raun óútskýranlegt hversu vel henni hefur gengið.

Madeline heilsast vel í dag. Hún þjáist af astma og er fíngerð - hún er tæpir 150 sentimetrar og rúmlega 30 kíló að þyngd.

Jim Mann, faðir Madeline, segir það hafa verið ógnvænlegt að eignast svo litla dóttur. En þegar árin liðu varð ljóst að Madeline ætti eftir að heilsast vel. Jim segir að erfiðast sé að velja föt á dóttur sína - enda sé hún smávaxin.

Hann sagðist bæði furða sig á árangri dóttur sinnar ásamt því að vera stoltur.

Madeline er nú að læra sálfræði við háskólann í Augustana og er fullkomlega eðlilegur, smávaxinn, einstaklingur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×