Aðalmeðferð yfir níumenningunum hófst aftur eftir hádegishlé nú rétt eftir klukkan eitt. Fyrir dóminn mætti þingvörður sem sagði að Alþingi hefði verið í raunverulegri hættu þegar fólkið gerði tilraun til að komast á þingpallana.
Þingvörðurinn Brynjar Benediktsson var fyrsta vitni ákæruvaldsins. Hann sagðist hafa fengið neyðarkall í talstöðina og séð fólk ryðjast inn. Hann sagðist hafa slasast við störf sín, hlotið meiðsli á öxl ásamt öðrum eymslum. Spurður hvort öryggi þingsins hafi verið ógnað svaraði hann:
"Já, það tel ég."
Ragnar Aðalsteinsson, einn af lögmönnum verjenda, gerði athugasemd við spurninguna þar sem hún fæli í sér gildismat. Dómari sagði þingvörðinn gegna því hlutverki að hann gæti talist sérfræðingur um málefnið.
"Það er hlutverk okkar þingvarða að sjá um öryggi þingsins," sagði Brynjar. "Ef við getum ekki sinnt okkar starfi og erum undir ógn þá hlýtur öryggi þingsins að vera í hættu."
Verjendur níumenningana spurðu Brynjar ítarlega út í staðhæfingar sínar. Meðal annars kom fram í máli Brynjars að ekki hefði verið gefin út skipun um að loka þingpöllunum. Þingvörðurinn benti á að samkvæmt brunarvarnarlögum væri aðeins pláss fyrir 24 á pöllunum.
Benti Ragnar Aðalsteinsson á að dæmi væru um að tugir manns hefði komið saman á þingpöllunum, til dæmis árið 1973 þar sem hundrað húsmæður fjölmenntu á pallana.
Jafnframt kom fram að sem þingvörður hefði Brynjar ekki hlotið þjálfun í mannfjöldastjórnun.