Fótbolti

Balotelli vill fara til Milan innan tveggja ára

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Ítalinn Mario Balotelli segist viss um að hann muni fara aftur til Ítalíu á næstu tveimur árum en hann er nú á mála hjá Manchester City.

Balotelli var orðaður við AC Milan nú í janúar en hann lék áður með Inter í sömu borg. Ekkert varð að því og fékk AC Milan framherjann Antonio Cassano frá Sampdoria.

„Öfunda ég Cassano af því að hafa farið til Milan? Örlítið,“ sagði Balotelli í samtali við ítalska fjölmiðla. „Silvio Berlusconi (eigandi Milan) sagði að Cassano væri besti ítalski leikmaðurinn í dag. Hann hefur rangt fyrir sér eða þá að hann þekkir ekki Balotelli.“

„Ég og Ibra (Zlatan Ibrahimovic) og Cassano hjá Milan? Það mun gerast. Ég verð áfram hjá City á þessu tímabili og því næsta en mér líður vel hér.“

Balotelli er nú meiddur á hné og hefur ekki spilað með City síðan í lok síðasta mánaðar. Hann stefnir að því að ná leiknum gegn Manchester United þann 12. febrúar næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×