Innlent

Inspired by Iceland meðal ástæða fyrir umsókn tímenninganna

Úr herferðinni Inspired by Iceland, sem hefur greinilega hitt í mark hjá tíu manns.
Úr herferðinni Inspired by Iceland, sem hefur greinilega hitt í mark hjá tíu manns.
„Ég varð mjög heillaður af Inspired by Iceland herferðinni sem og skjólstæðingar mínir," sagði lögfræðingurinn David Lesperance, um eina af þeim ástæðum að tíu auðugir einstaklingar hafi sótt um ríkisborgararétt hér á landi fyrir sig og börnin sín.

Rætt var við lögfræðinginn í Kastljósi en hann sérhæfir sig í ráðgjöf um hvernig menn geta fengið ríkisborgararétt í löndum þar sem skattkerfið er þeim hagstætt.

Hann sagði hinsvegar í viðtali við Kastljós að markmið skjólstæðinga hans væri ekki sérstaklega að hagnast á Íslandi, væri það tilgangurinn gætu þau flutt til hundruð landa sem eru álitnar skattaparadísir, „og Ísland er ekki eitt af þeim löndum," bætti David við. Hann sagði skjólstæðinga sína vilja vera hluti af liðsheld Íslands, eða „Join team Iceland“ eins og hann orðaði það á frummálinu.

Hann segir skjólstæðinga sína meðal annars vera andvíg kjarnorkuverum og hernaði í heimalöndum sínum. Meðal annars óttast þeir að börnin sín verið kvödd í herinn. Ísland nýti hinsvegar endurnýjanlega orku auk þess sem hér sé enginn her, sem er aðalandi kostur fyrir skjólstæðinga Davids.

Hann segir fólkið hafa heimspekilega sýn á það í hvað skattfé þeirra eigi að fara. Þau vilji ekki að ríkisstjórnir eyði því í hernað svo dæmi sé tekið. Því telji þau að skattfé þeirra sé betur varið á Íslandi en í sínu heimalandi, en aðilarnir sem um ræðir, eru frá Bandaríkjunum og Kanada.

Hann segir að skjólstæðingar sínir séu „inspired by Iceland" og vitnar þar í auglýsingaherferðina. Hann spyr svo hvort Íslendingar vilji ekki nýta innblásturinn í að búa til nýja og gagnlega þjóðfélagsþegna.

Umsókn tímenninganna er á borði allsherjarnefndar. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði á þingi í dag að umsóknin vekti hjá sér grunsemdir. En hún treystir allsherjarnefnd til þess að takast á við málið.


Tengdar fréttir

Vilja ríkisborgararétt til þess að fjárfesta í orkuauðlindum Íslands

Tíu fjársterkir aðilar frá Bandaríkjunum og Kanada, hafa óskað eftir íslenskum ríkisborgararétti fyrir sig og börn sín. Samkvæmt fréttastofu RÚV, þá er um fjársterka reynslubolta úr orkubransanum að ræða en þeir hafa hug á að fjárfesta í endurnýjanlegri orku hér á landi.

Athafnamaður úthrópaður sonur Satans

"Ég er bara aumur frumkvöðull sem er að reyna að sækja erlent fjármagn til fjárfestinga á Íslandi," segir Sturla Sighvatsson, framkvæmdastjóri Northern Lights Energy. Hann segist vera orðinn úthrópaður sem sonur Satans í bloggheimum eftir að hann kom fram í Kastljósi í gær og mælti fyrir hópi fjárfesta sem vilja fá íslenskan ríkisborgararétt gegn því að fjárfesta hér í miklum mæli, meðal annars í endurnýtanlegri orku. Sturla var gestur þeirra Þorkels Mána Péturssonar og Frosta Logasonar í þættinum Harmageddon á X-inu nú síðdegis. Þar sagði Sturla að íslenskir athafnamenn hafi að fyrra bragði leitað til lögmannsins David S. Lesperance sem síðan hafi komið saman tíu manna hópi fjarfesta sem eru áhugasamir um að fjárfesta á Íslandi. Umræða um þessa erlendu fjárfesta hefur verið á mjög neikvæðum nótum í dag og margir eru afar tortryggnir. Þá hefur Sturla einnig verið gagnrýndur fyrir að tala máli þessa fólks. Á Harmageddon sagðist hann ekki þekkja fjárfestana persónulega en hann hefði vissulega hitt marga þeirra þegar þeir hafa heimsótt landið. Hann segir ekki taka því að hafa áhyggjur af eigin orðspori í þessu sambandi því þegar sé búið að taka hann af lífi. "Það er nú þegar búið að hengja mig í bloggheimum. Ég er klárlega mjög vondur maður fyrir það að laða fólk og fjármagn til Íslands. Ég er úthrópaður sonur Satans á hinum ýmsu síðum," segir Sturla sem virðist ekki taka þessar upphrópanir mjög nærri sér, enda eigi þær ekki við nein rök að styðjast. "Ég vil ekki frekar en nokkur annar að það komi hingað til landsins einhverjir glæpasnúðar," segir hann og telur sig hafa aflað sér það mikilla upplýsinga um fjárfestana að hann geti staðhæft að þarna séu ekki glæpamenn á ferð.

Hópurinn vildi ríkisborgararétt strax í desember

Hópur erlendra ríkisborgara sem sótt hefur um íslenskan ríkisborgararétt fyrir stefndi að því að fá Alþingi til að taka umsóknirnar til afgreiðslu í desember 2010, þegar aðrar umsóknir um ríkisborgararétt fengu umfjöllun. Það gekk ekki eftir því innanríkisráðuneytið lagði "alla mögulega steina í götu þess að Alþingi fengi að fjalla um framangreindar umsóknir."

Gullgæsir sækja um ríkisborgararétt

Lögfræðingurinn David S. Lesperance er í forsvari fyrir þann hóp fjárfesta sem hér hefur sótt um ríkisborgararétt gegn því að fjárfesta á Íslandi í stórum stíl. Þetta staðfestir Róbert Marshall, formaður allsherjarnefndar, í samtali við fréttastofu. Lesperance hefur sérhæft sig í ráðgjöf til auðmanna um hvernig þeir geta fengið ríkisborgararétt í löndum þar sem skattkerfið er þeim hagstætt, og aðstoðar þá við að koma sér upp svokölluðu Passport portfolio. Þannig geta auðmennirnir nýtt sér það besta úr kerfi hvers lands sem þeir hafa ríkisborgararétt í þegar kemur að skattalegri meðferð Hann heldur úti nokkrum vefsíðum, meðal annars síðu sem ber heitið The flight of the golden gees og útleggst á íslensku sem Flug gullgæsanna. Með því að smella tengilinn hér að ofan er hægt að horfa á litla teiknimynd, með ensku tali, þar sem sögð er saga af gullgæs sem ber af hinum dýrunum á bóndabænum og þarf að deila gulleggjunum sínum með hinum dýrunum. Hún kemst síðan í kynni við hóp annarra gullgæsa sem allar eru á leið á bóndabæ þar sem þær fá að halda stærri hluta af gulleggjum sínum, og slæst í hópinn. Eins og fréttastofa greindi frá fyrr í dag hefur allsherjarnefnd ekki fjallað um umsóknir þessara einstaklinga og vill Róbert ekki tjá sig um starfsemi Lesperance. Þeir tíu einstaklingar sem Lesperance vinnur nú fyrir, og hafa sótt hér um ríkisborgararétt, heita: Aaron Robert Thane Ritchie Rodney Chadwick Muse Patrick Charles Egan David Joseph Steinberg Christopher Bailey Madison Calvin Wilson Alexey Viktorovich Maslov Peter Kadas Patrick Hoiland Sandra Jean Houston

Róbert Marshall: Ekki verið að selja Ísland

„Við höfum enn ekkert fjallað um þessar umsóknir," segir Róbert Marshall, formaður allsherjarnefndar Alþingis. Lögmaður tíu manna hóps fjárfesta hefur skrifað formanni allsherjarnefndar bréf þar sem þrýst er á að nefndin taki umsóknirnar fyrir. Innanríkisráðuneytið hefur haft umsóknirnar til umfjöllunar og óskað eftir viðbótargögnum sem ekki hefur verið skilað. Lögmaður hópsins segir kröfur ráðuneytisins í samræmi við lög og reglur. Róbert segir að nefndin geri ráð fyrir að fjalla um umsóknirnar um miðjan apríl, eftir rúman hálfan mánuð. Bréfið sem lögmaðurinn sendi Róbert, og birt var á Eyjunni í morgun, var dagsett 7. febrúar. Þar kemur fram að hópurinn hafi reiknað með að Alþingi myndi taka umsóknirnar fyrir í desember, þegar aðrar umsóknir voru afgreiddar. Spurður hvort ekki megi skilja bréfið þannig að þrýst sé á allsherjarnefnd að taka umsóknirnar fyrir sem fyrst, segir Róbert: „Það getur verið að einhver hafi einhverjar meiningar um það, en það er ekkert sem við verðum við. Þetta tekur allt tíma," segir Róbert og bendir á að fjöldi annarra mála bíði afgreiðslu hjá allsherjarnefnd. Í Kastljósi í gær kom fram að umræddir fjárfestar hefðu sérstakan áhuga á endurnýjanlegri orku og fjárfestingum í þeim geira á Íslandi. Netheimar tóku hratt við sér í framhaldinu og virtust margir óttast að hér voru komnir aðilar sem ætluðu að sölsa undir sig íslenskar orkuauðlindir. Spurður hvort hann telji ástæðu fyrir fólk til að hafa áhyggjur af því að verið sé að selja Ísland með þessum hætti, segir Róbert: „Það er algjörlega út í hött. Það er enginn að tala um neitt slíkt. Við erum ekki með ríkisborgararétt til sölu. Allt tal um að það sé verið að fara að selja orkuauðlindir eða landið á bara ekki við neinn rök að styðjast." Sem fyrr vísar hann til þess að einstaklingar sem teljast vera akkur fyrir Ísland hafa í gegn um tíðina fengið undanþágur frá hefðbundinni afgreiðslu á umsóknum um ríkisborgararétt, til að mynda ef fólk telst bera af í listum eða íþróttum. Í framhaldinu þurfi nú að meta hvort við viljum fá inn fjárfesta á þessum sama grundvelli.

Það sækir uggur að Jóhönnu

Það vekur upp áhyggjur og grunsemdir ef fjársterkir aðilar eru að koma hér og sækja um ríkisborgararétt til að geta fjárfest í íslenskum orkuauðlindum. Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, spurði forsætisráðherra út í málið.

Gullgæsir vilja verpa á Íslandi

Erlendir fjárfestar sem sótt hafa um íslenskan ríkisborgararétt njóta liðsinnis bandaríska lögfræðingsins Davids Lesperance. Hann sérhæfir sig í ráðgjöf um hvernig menn geta fengið ríkisborgararétt í löndum þar sem skattkerfið er þeim hagstætt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×