Fótbolti

Mourinho ver liðsval sitt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jose Mourinho, stjóri Real Madrid.
Jose Mourinho, stjóri Real Madrid. Nordic Photos / Getty Images
Jose Mourinho segir að það hafi verið rétt hjá sér að stilla upp sínu sterkasta liði gegn Tottenham í Meistaradeild Evrópu í kvöld.

Mourinho er stjóri Real Madrid sem vann 4-0 sigur á Tottenham í fyrri leik liðanna í síðustu viku. Real vann svo 1-0 sigur í Lundúnum í kvöld og tryggði sér þar með sæti í undanúrslitunum þar sem liðið mætir erkifjendum sínum í Barcelona.

Mourinho tefldi fram fjórum leikmönnum sem voru á gulu spjaldi og einn þeirra, Ricardo Carvalho, fékk gult fyrir brot á Tom Huddlestone og missir því af fyrri leiknum gegn Barcelona.

„Ég tel að það hafi verið rétt ákvörðun að tefla fram alvöru liði," sagði Mourinho eftir leikinn í kvöld. „Tottenham tókst þrátt fyrir það að skapa sér nokkur góð færi í fyrri hálfleik og þetta hefði verið erfitt fyrir okkur ef þeir hefðu skorað, sérstaklega þar sem þeir voru studdir af ótrúlegum hópi stuðningsmanna á vellinum í kvöld."

„En svo þegar að Cristiano skoraði var þetta búið spil. Við skulum núna sjá hvað gerist gegn Barcelona. Undanúrslit eru undanúrslit og allt getur gerst. Við munum berjast en það er ótímabært að hugsa um undanúrslitin nú," sagði Mourinho en Real mun mæta Barcelona fjórum sinnum á næstu vikum.

Schalke komst í kvöld áfram með því að vinna samanlagðan 7-3 sigur á Inter sem Mourinho gerði að Evrópumeisturum í fyrra. Schalke mætir Manchester United í undanúrslitum.

„Ég á von á því að United vinni Schalke því það er betra liðið."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×