Innlent

Bíllinn kyrrsettur þó áfengi væri undir refsimörkum

Lögreglan á Akureyri stöðvaði ökumann í nótt sem reyndist við nánari athugun vera undir áhrifum áfengis. Mælt magn áfengis reyndist vera 0,2 prómill en það er undir skilgreindum refsimörkum sem eru 0,5 prómill og mun hann því ekki eiga von á sviptingu ökuréttinda.

Lögregla kyrrsetti þó bíl mannsins enda segir í lögum að akstur undir áhrifum áfengis og annarra vímuefna er bannaður.

Umferðarstofa og lögreglan á Akureyri vilja árétta að akstur undir áhrifum áfengis og annarra vímuefna er bannaður - sama hve mikils eða lítils magns er neytt. Margir halda að það sé óhætt að aka svo lengi sem mælt magn áfengis í blóði er undir 0,5 prómillum en svo er ekki.

Ef lögregla stendur ökumann að því að vera undir einhverjum áhrifum skal setja viðkomandi í tímabundið akstursbann, þótt mælt magn áfengis sé undir refsimörkum.

Yfirleitt er viðkomandi bannað að aka innan eins til tveggja sólarhringa eða að minnsta kosti þar til öll áhrif áfengis eru horfin. Ástæða þessa er sú að minnstu áhrif áfengis og annarra vímuefna slæva dómgreind og athygli ökumanns og geta og hafa leitt til alvarlegra slysa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×