Erlent

Bretar mótmæla niðurskurði

Í London komu þúsundir manna saman til að mótmæla skerðingu lífeyrisbóta.
Í London komu þúsundir manna saman til að mótmæla skerðingu lífeyrisbóta. Mynd/AFP
Um 750 þúsund opinberir starfsmenn í Bretlandi lögðu niður vinnu í gær. Margir þeirra tóku þátt í mótmælaaðgerðum í London og víðar um landið. Starfsemi lá meira eða minna niðri í skólum, hjá dómstólum, á skrifstofum skattstjóra og vinnumiðlunum en allt ætti þetta að komast í samt lag aftur í dag, þegar vinna hefst að nýju.

Breskir launþegar mótmæla niðurskurði í ríkisfjármálum, einkum fyrirhugaðri skerðingu lífeyrisbóta.

Verkfallið í gær, sem stóð einungis í einn dag, er aðeins hið fyrsta af mörgum sem bresk verkalýðsfélög hafa skipulagt í sumar. Verkfallsaðgerðunum verður öllum beint gegn aðhaldsaðgerðum samsteypustjórnar breska Íhaldsflokksins og Frjálslyndra, sem tók við kreppuvanda ríkisstjórnar Verkamannaflokksins eftir kosningar á síðasta ári.

Helen Andres frá breska kennarasambandinu segir bresku stjórnina krefjast þess að kennarar greiði meira til ríkisins og vinni meira en fái minni laun.

Hún segir David Cameron forsætisráðherra hafa sakað kennara um siðleysi með því að leggja niður kennslu en spyr á móti: „Hver er í raun siðlaus? „Þjófurinn eða þeir sem reyna að stöðva þjófinn?“- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×