Erlent

Bandaríkjaþing frestar fríinu

Mike Lee, einn þingmanna repúblikana, tjáir sig um fjárlagahallann.
Mike Lee, einn þingmanna repúblikana, tjáir sig um fjárlagahallann. Mynd/AP
Harry Reid, leiðtogi meirihluta demókrata í öldungadeild Bandaríkjaþings, segir það hafa orðið niðurstöðu þingmanna að fresta sumarfríinu, sem átti að hefjast eftir helgi.

Þess í stað ætla þeir að halda áfram að reyna að ná samkomulagi um lántökuheimildir ríkisins. Barack Obama forseti hefur lagt mikla áherslu á að lántökuheimildin verði hækkuð verulega fyrir ágústbyrjun, því annars geti ríkið ekki greitt allar afborganir af skuldum sínum.

Greiðslufall Bandaríkjanna myndi hafa mikil áhrif á heimsmarkaði. Pólitísk áhrif á kosningabaráttuna á næsta ári yrðu væntanlega ekki minni.

Repúblikanar saka forsetann um ofuráherslu á skattahækkanir. Með því komi hann í raun í veg fyrir að þingið nái samkomulagi um ríkisskuldir og fjárlagahallann.

Obama svaraði því til nú í vikunni að repúblikanar þurfi bara að fallast á hugmyndir hans um að afnema skattafrádrátt milljarðamæringa, olíufélaga, vogunarsjóðsstjóra og þotueigenda í fyrirtækjum. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×