Innlent

Gísli Marteinn lék borgarstjóra

Gísli Marteinn Baldursson uppi á sviði með Skakkamanage.
Gísli Marteinn Baldursson uppi á sviði með Skakkamanage.
„Það var heiður fyrir mig að taka þátt í þessu,“ segir borgarfulltrúinn Gísli Marteinn Baldursson. Hann steig óvænt upp á svið með hljómsveitinni Skakkamanage á Bakkusi í fyrrakvöld og fór með rullu borgarstjóra í laginu Colonial.

„Þau vissu að ég væri mikill aðdáandi sveitarinnar og að ég ætlaði á þessa tónleika og þau báðu mig um að leika borgarstjórann þeirra,“ segir Gísli Marteinn sem þekktist að sjálfsögðu boðið. Um er að ræða kafla í laginu þar sem söngvarinn Svavar Pétur Eysteinsson kallar á „herra borgarstjóra“ úr salnum og þá kemur þekktur einstaklingur upp á svið og tekur þátt í stuttum leikþætti.

Aðspurður segist Gísli Marteinn reyna að fara á eins marga litla tónleika og hann mögulega getur. „Ég er ekki mikið fyrir Eagles og svoleiðis stóra tónleika með útlenskum númerum en litlir tónleikar með góðum íslenskum hljómsveitum finnst mér meiriháttar.“

Svavar Pétur úr Skakkamanage hefur áður fengið upp á svið kappa á borð við Grím Atlason, fyrrverandi bæjarstjóra Bolungarvíkur, Árna Vilhjálmsson úr FM Belfast og listmálarann Davíð Örn Halldórsson.

„Við erum búin að vera með bæjarstjóra og borgarstjóraefnið Gísla Martein. Ætli þetta endi ekki á því að sjálfur borgarstjórinn verði fenginn til að leika borgarstjórann,“ segir Svavar Pétur. „Við erum virkilega glöð yfir að hafa fengið Gísla Martein. Ef hann verður borgarstjóri held ég að hann geti þakkað okkur fyrir það.“ - fb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×