Innlent

Segir skotgrafahernað SA hafa gengið of langt

Vilhjálmur Egilsson hafnaði tilboði Starfsgreinasambandsins
Vilhjálmur Egilsson hafnaði tilboði Starfsgreinasambandsins
Formaður Starfsgreinasambandsins segir verkafólk grípa til verkfallsvopnsins verði ekki gengið frá nýjum kjarasamningum á næstunni. Það sé ekki hægt að búa við það lengur að skotgrafarhernaður stjórnvalda og Samtaka atvinnulífsins haldi launafólki í gíslingu.

Starfsgreinasambandið gerði Samtökum atvinnulífsins tilboð að kjarasamningi til eins árs fyrir helgina. Í tilboðinu var gert ráð fyrir tíu prósenta launahækkun og að lægstu laun yrðu 200 þúsund. Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins hafnar þessu tilboði í Fréttablaðinu í dag. Hann segir ekki ganga upp að gera skammtímasamning sem byggi á tölum úr drögum að samningi til þriggja ára. Þá verði hagvöxtur að verða meiri en spár geri ráð fyrir svo hægt verði að semja um launahækkanir.

Björn Snæbjörnsson formaður Starfsgreinasambandsins segir að Vilhjálmur hljóti að leggja fram gagntilboð á fundi í Karphúsinu í dag. Þá komi í ljós hvort vilji sé til þess að ná fram kjarasamningi.

Björn segir alla sammála um að niðurstaða þurfi að nást varðandi stjórn fiskveiða, en Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra mun væntnlega leggja fram frumvarp í þeim efnum í næsta mánuði.

Skotgrafarhernaður stjórnvalda og Samtaka atvinnulífsins hafi gengið of langt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×