Innlent

Lokun flugvalla var réttlætanleg

„Við sýndum fram á að þessi gjóska er mjög fínkornótt þannig að hún barst langt með loftstraumum,“ segir Sigurður R. Gíslason, jarðvísindamaður við Háskóla Íslands, sem stjórnaði ásamt Susan Stipp við Kaupmannahafnarháskóla rannsókn á gjóskunni úr eldgosinu í Eyjafjallajökli á síðasta ári.

„Þessi gjóska var hættuleg við innöndun og sum efnanna í henni voru hættuleg umhverfinu,“ segir Sigurður. Hins vegar segir hann það hafa verið heppilegt fyrir Íslendinga að fyrsta gjóskulagið, sem barst úr gígnum þegar vatn var enn í honum, innihélt ekki þessi hættulegu efni og hlífði jarðveginum þegar hættulegri efnin bárust síðar.

Niðurstöðurnar benda einnig til þess að lokun flugvalla hafi verið réttlætanleg í ljósi þess tjóns sem gjóskan hefði getað valdið.

„Ef hún hefði lent á flugvélum hefði hún sandblásið þær þannig að gluggar hefðu getað orðið ógegnsæir. Efnasamsetning og kristallategund gjóskunnar var auk þess þannig að hún myndi bráðna í hreyflum flugvélanna og síðan storkna í kaldari hluta vélanna, þannig að hún hefði getað stoppað hreyflana.“

Niðurstöður rannsóknanna eru birtar í dag í tímariti bandarísku vísindaakademíunnar, PNAS. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×