Innlent

Ekki algengt að uglur stilli sér upp fyrir fólk

Ekki er algengt að uglur séu á ferðinni í björtu, eins og sú á myndinni í Grafarvoginum í gær. Nokkur hundruð branduglur eru að jafnaði á Íslandi yfir vetrartímann.fréttablaðið/arnþór
Ekki er algengt að uglur séu á ferðinni í björtu, eins og sú á myndinni í Grafarvoginum í gær. Nokkur hundruð branduglur eru að jafnaði á Íslandi yfir vetrartímann.fréttablaðið/arnþór

„Þetta var mjög gaman og afar sérstakt. Ég varð rosalega hissa að sjá ugluna sitja í rólegheitum svona nálægt okkur,“ segir Anna Björg Kristbjörnsdóttir, íbúi í Gerðhömrum í Grafarvogi. Önnu brá heldur betur í brún um þrjúleytið í gærdag þegar hún kom heim til sín og sá branduglu hvíla sig á grindverki hjá heimili hennar. „Við lögðum bílnum og röltum að henni, en hún var mjög spök og lét sér hvergi bregða. Við vorum líklega í um tveggja metra fjarlægð frá henni og hún flaug ekki í burtu fyrr en ljósmyndari Fréttablaðsins smellti af henni myndum. Þá höfum við líklega farið aðeins of nálægt,“ segir Anna.

Ólafur Karl Nielsen, fuglafræðingur við Náttúrufræðistofnun Íslands, segir brandugluna einu uglutegundina sem er árviss varpfugl hér á landi. Hinar tegundirnar sem orpið hafa á Íslandi eru snæugla og eyrugla.

„Það er eitthvað af branduglum hér á Reykjavíkursvæðinu á hverjum vetri,“ segir Ólafur og bætir við að mest séu þær á ferðinni í síðdegisrökkrinu, um nætur og á morgnana. „Það er ekki mjög algengt að þær stilli sér svona upp fyrir fólk. Þær nota trjálundi til að sofa í og þekkt náttból þeirra eru til dæmis í Öskjuhlíð, Elliðaárdal, Skógræktinni í Fossvogi og skógræktarlandinu á Keldum. Þegar þær vaka eru þær á ferðinni og reyna að fanga mýs og smáfugla,“ segir Ólafur. - kg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×