Innlent

Féll ofan í ísilagða Reykjavíkurtjörn og drukknaði næstum því

Valur Grettisson skrifar
Reykjavíkurtjörn. Myndin er úr safni.
Reykjavíkurtjörn. Myndin er úr safni.

Nítján ára piltur lenti í lífshættu aðfaranótt sunnudags þegar hann ætlaði að stytta sér leið yfir Reykjavíkurtjörn samkvæmt áreiðanlegum heimildum Vísis.

Tjörnin var frosin en ísinn gaf skyndilega undan þunga piltsins með þeim afleiðingum að hann féll ofan í. Þar barðist pilturinn fyrir lífi sínu í um 15 mínútur.

Það varð honum sennilega til lífs að vegfarandi átti leið framhjá og varð hans var. Vegfarandinn komst ekki að piltinum af ótta við að lenda sjálfur ofan í vökinni. Þess í stað talaði hann við piltinn og hélt honum við efnið þar sem hann var orðinn verulega þrekaður.

Lögreglan kom að lokum á staðinn. Þeir náðu piltinum upp úr. Hann var færður undir eins á spítala þar sem í ljós kom að líkamshiti piltsins var kominn niður í 33 gráður.

Samkvæmt aðstandanda piltsins, sem Vísir ræddi við, þá er hann á batavegi eftir svaðilförina. Hann segir að ekki hafi mátt tæpara standa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×