Erlent

Hæstiréttur hunsar beiðni Obama og heimilar aftöku

Mexíkóskur ríkisborgari var í nótt tekinn af lífi í ríkisfangelsinu í Texas, þrátt fyrir að Barack Obama Bandaríkjaforseti hefði farið fram á að aftökunni yrði frestað. Beiðnin var tekin fyrir af Hæstarétti Bandaríkjanna og höfnuðu dómararnir beiðni forsetans. Áður hafði Rick Perry ríkisstjóri Texas einnig hafnað beiðni um náðun.

Humberto Leal fluttist til Bandaríkjanna með fjölskyldu sinni þegar hann var ungabarn. Hann var sakfelldur fyrir nauðgun og morð á unglingi árið 1994 og hefur verið á dauðadeild síðan.

Enginn vafi leikur á sekt Leal, en vafi leikur hinsvegar á því að handtakan hafi verið framkvæmd með löglegum hætti. Í ljósi þess að hann var með mexíkanskt ríkisfang hefðu lögreglumenn átt að greina honum frá því að hann ætti rétt á að óska eftir lögfræðiaðstoð frá mexíkönskum yfirvöldum. Það hefði mögulega komið í veg fyrir dauðadóm.

Barack Obama óskaði því eftir frestun á aftökunni og það höfðu Sameinuðu þjóðirnar og ríkisstjórn Mexíkós einnig gert. Hugmynd Obama var að gefa bandaríkjaþingi færi á að klára lagasetningu sem mun gera ákæruvaldinu skylt að útvega erlendum ríkisborgurum sem ekki fá hjálp frá heimaríki sínu lögfræðiaðstoð.

Hæstiréttur klofnaði þegar hann tók beiðni Obamas fyrir og vildu fjórir dómarar fallast á hana. Fimm voru hinsvegar á móti og sögðu það ekki verkefni réttarins að úrskurða um hvernig lögin gætu mögulega verið, heldur hvernig þau væru í raun.

Humberto Leal var tekinn af lífi klukkustund eftir að Hæstiréttur felldi úrskurð sinn. Hans síðustu orð voru: „Viva Mexico!"




Fleiri fréttir

Sjá meira


×