Fótbolti

Fjórar íslenskar stelpur í byrjunarliðinu í tapi Kristianstad

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elísabet Gunnarsdóttir.
Elísabet Gunnarsdóttir. Mynd/Pjetur
Elísabet Gunnarsdóttir og liðsmenn hennar í Kristianstad töpuðu 1-3 á útivelli á móti Linköping í sænsku kvennadeildinni í kvöld. Liðin höfðu gert markalaust jafntefli á heimavelli Kristianstad fyrir átta dögum. Kristianstad er áfram í sjötta sæti deildarinnar en er nú aðeins einu stigi á undan Linköping.

Finnska landsliðskonan Linda Sällström skoraði fyrsta mark leiksins í uppbótartíma fyrri hálfleiks en það kom eftir sendingu frá Louisu Fors sem síðan bætti við öðru marki á 81. mínútu. Joanna Andersson innsiglaði síðan sigurinn á 84. mínútu eftir sendingu frá Sällström áður en Mia Carlsson minnkaði muninn fyrir Kristianstad á 89. mínútu.

Fjórir íslenskir leikmenn voru í byrjunarliði Kristianstad. Sif Atladóttir var í miðverðinum, Guðný Björk Óðinsdóttir spilaði sem hægri bakvörður, Erla Steina Arnardóttir var á miðjunni og Margrét Lára Viðarsdóttir lék í framlínunni. Erla fór út af á 74. mínútu en hinar spiluðu allan leikinn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×