Innlent

Mikilvægt að hefjast handa við atvinnuuppbyggingu

Karen D. Kjartansdóttir skrifar
Gjástykki
Gjástykki
Það er mikilvægt að hefjast sem fyrst handa við atvinnuppbyggingu í Þingeyjarsýslu og til þess ætti að nýta orkuna á svæðinu. Þetta segir formaður Samfylkingarinnar í Þingeyjarsýslu. Hann mótmælir algjörri friðun Gjástykkis.

Aðalfundur samfylkingarinnar í Þingeyjarsýslu var haldinn á Húsavík í gær. Í ályktun sem fundurinn sendi frá sér kemur fram skýr áhersla á að stjórnvöld standi við fyrirheit um að beita sér fyrir rannsóknum á orkuöflun á háhitasvæðum Þingeyjarsýslu svo skapa megi atvinnu og um leið nýta orkuna sem þar má finna.

„Við höfum mjög miklar áhyggjur af stöðu atvinnumála á svæðinu og sú umræða sem snýr að orkuöfluninni og framkvæmdum í kjölfarið hefur dregist alltof mikið," segir Ingólfur Freysson, formaður Samfylkingarinnar í sýslunni.

Í ályktuninni er einnig lagst gegn algjörri friðun Gjástykkis.

„Öll sveitafélög á svæðinu hafa mótmælt þeirri yfirlýsingu um að stjórnvöld vilji friða Gjástykki algjörlega. Þarna er um að ræða ákaflega lítið brot af öllu svæðinu sem menn vilja rannsaka, sumir tala um að það sé ekki nema tvö prósent af því. Þannig það er ekkert óðelilegt að sveitarfélögin sem hafa þarna skipulagsvald vilji skoða og athuga hvað svæðið býður upp á hvað varðar orku," segir Ingólfur.

Í ályktuninni er þess einnig getið að á undanförnum árum hefur íbúum í Þingeyjarsýslu fækkað. Þá þróun megi rekja til þess að störfum í frumvinnslugreinum hefur fækkað og segir að tekjur sveitarfélaganna standi tæpast undir nauðsynlegri grunnþjónustu lengur.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×