Innlent

Darraðardans við Lækjargötu

Óöld var í þjóðlífinu í byrjun árs 2009. Þremur mánuðum áður hafði almenningur horft upp á spilaborgina sem kallaðist fjármálakerfi hrynja til grunna og fannst ekkert hafa gerst síðan. Þolinmæðin gagnvart ráðþrota ríkisstjórn var á þrotum. Fólkið kallaði „vanhæf ríkisstjórn" og krafðist kosninga en forystumenn stjórnarflokkanna hlustuðu ekki. Þegar Alþingi kom úr jólaleyfi 20. janúar loguðu eldar á Austurvelli en innandyra sagði Geir H. Haarde að aðgerðir úr áætlunum fyrir heimili og fyrirtæki væru smátt og smátt að koma til framkvæmda.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagðist vilja halda samstarfinu áfram en í flokki hennar kraumaði óánægja. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þá nýkjörinn formaður Framsóknarflokksins, bar betra skynbragð á ástandið en þau þaulreyndu Geir og Ingibjörg og bauðst til að verja stjórn Samfylkingarinnar og VG falli.

Sigmundur skerst í leikinn

Ingibjörg Sólrún gaf í fyrstu lítið fyrir hugmyndir um nýja ríkisstjórn en Geir sá í hvað stefndi og lagði til að efnt yrði til kosninga en stjórnin sæti fram að þeim. Í nokkra daga mátu þau stöðuna og gerðu kröfur hvort á annað um nauðsynleg skilyrði fyrir áframhaldandi samstarfi. Sjálfstæðisflokkurinn vildi að ríkisútgjöldin yrðu skorin niður um tugi milljarða til viðbótar við þann mikla niðurskurð sem ákveðinn var í fjárlögum ársins.

Samfylkingin lagði höfuðáherslu á að Davíð Oddsson yrði rekinn úr Seðlabankanum og að stefna skyldi að umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Að endingu fór svo að upp úr slitnaði og Samfylkingin og VG mynduðu stjórn sem Framsóknarflokkurinn hét að verja vantrausti. Jóhönnu Sigurðardóttur, elsta og reyndasta þingmanni Samfylkingarinnar, var falin forystan.

Miklar væntingar

Allar aðstæður voru með miklum ólíkindum þegar Jóhanna varð forsætisráðherra 1. febrúar 2009. Vandamál hvert sem litið var. Atvinnulífið var stórkostlega laskað, fjöldagjaldþrot fyrirtækja blöstu við með tilheyrandi atvinnuleysi og tekjubresti fólks og hrun í tekjum ríkis og sveitarfélaga var staðreynd. Við bættust allar erfiðu tilfinningarnar sem brutust út í fólki vegna ástandsins; kvíði, reiði og sorg. Væntingarnar sem gerðar voru til ríkisstjórnarinnar voru miklar.

Ný stjórn, sem mynduð var til að starfa í tæpa 90 daga, lagði fyrst í stað ekki sérstaka áherslu á vinstri pólitík. Hún sagði verkefni sitt fyrst og fremst að endurreisa efnahagslífið, ráðast í aðgerðir til bjargar heimilum og atvinnulífi og auka lýðræðið. Fyrst á dagskrá var þó að reka Davíð Oddsson úr Seðlabankanum.

Davíð rekinn

Í ríkisstjórninni sátu fjórir ráðherrar úr hvorum stjórnarflokki og utanþingsráðherrarnir Gylfi Magnússon og Ragna Árnadóttir. Var þeim ætlað að veita stjórninni faglegan blæ enda sérfróð um efnahagsmál annars vegar og málefni er heyrðu undir dómsmálaráðuneytið hins vegar. Voru áratugir síðan óflokksbundnir ráðherrar höfðu setið í ríkisstjórn Íslands.

Stjórnin var varfærin í aðgerðum, ef frá er talin brottvikning Seðlabankastjóranna Davíðs og hinna tveggja. Skipaðar voru nefndir um ýmis málefni, til dæmis Evrópumál og stjórnarskrármál, og ráðist í tiltölulega veigalítil verkefni í samræmi við verkefnaskrána. Ríkisstjórnin var enda fyrst og fremst mynduð til að skapa ró í samfélaginu og veita nauðsynlega forystu fram að kosningunum í lok apríl.

Norræn velferðarstjórn

Stjórnarflokkarnir gengu óbundnir til kosninga, eins og það heitir, en forystumenn þeirra drógu ekki dul á þann vilja sinn að halda samstarfinu áfram, fengist til þess nægur þingstyrkur. Og sú varð raunin, Samfylkingin bætti við sig tveimur þingmönnum, VG vann kosningasigur og bætti við sig fimm en Sjálfstæðisflokkurinn galt afhroð og tapaði níu þingsætum.

Ný ríkisstjórn Jóhönnu með fimm manna þingmeirihluta tók við 10. maí og valdi Norræna húsið til að kynna stefnuyfirlýsinguna.

Nú kvað við nýjan tón, varlegheitunum var ekki fyrir að fara, markmiðið var ekki að stuðla að ró í samfélaginu. Nýja ríkisstjórnin skilgreindi sig sem „norræna velferðarstjórn", hún sagði (eins og rétt var) að hún væri fyrsta hreina vinstri stjórnin og hét að starfa í anda þess. Ný gildi jöfnuðar, félagslegs réttlætis, samhjálpar, sjálfbærrar þróunar, kvenfrelsis, siðbótar og lýðræðis skyldu leidd til öndvegis. Taka ætti almannahagsmuni fram yfir sérhagsmuni. Í stuttu máli má segja að ríkisstjórnin hafi ætlað sér - og hún ætlar sér enn - að umbylta samfélaginu. Færa það frá hægri til vinstri, frá kapítalisma til kommúnisma, vilja sjálfsagt einhverjir orða það. Og auðvitað slá skjaldborg um heimilin.

Brýnasta verkið tók tvö ár

Þótt fyrri ríkisstjórn Jóhönnu hafi í orði kveðnu verið mynduð til að endurreisa efnahagslífið og ráðast í nauðsynlegar aðgerðir heimilum og fyrirtækjum til heilla fór það nú svo að þegar nýja stjórnin tók við þremur mánuðum síðar voru þau sömu mál enn forgangsverkefni. En Davíð var sannarlega kominn út úr Seðlabankanum.

Reyndin er svo sú að nítján mánuðir liðu þar til loksins var gengið frá því sem heitir „Víðtækar aðgerðir vegna skulda- og greiðsluvanda heimilanna" og enn eru meinbugir á að þær aðgerðir komist almennilega til framkvæmda. Örstutt er líka síðan sambærilegar lausnir fyrir smá og meðalstór fyrirtæki voru kynntar. Það tók sem sagt næstum tvö ár að finna endanlega lausn á þessum brýnu forgangsmálum sem Samfylkingin mat Sjálfstæðisflokkinn ófæran um að ráðast í og varð, með öðru, til þess að hún sleit við hann samstarfinu í janúar 2009.

Samvinna og sundrung

Í upphafi forsætisráðherratíðar sinnar lagði Jóhanna Sigurðardóttir talsvert upp úr samvinnu við stjórnarandstöðuna. Ákall um samstarf þingheims alls var að finna framarlega í fyrstu stefnuræðum hennar en færðist aftar og var loks horfið úr ræðunni síðastliðið haust.

Í henni sagði Jóhanna hins vegar að aukin harka innan þings og átök á milli þings og ríkisstjórnar væru vandamál sem brýnt væri að finna lausn á. Haustræðan var flutt nokkrum dögum eftir að Alþingi samþykkti að ákæra Geir H. Haarde fyrir landsdómi. Sjálf var Jóhanna á móti en Samfylkingin skiptist til helminga í atkvæðagreiðslunni.

Niðurstaðan hleypti illu blóði í þingmenn Sjálfstæðisflokksins og sumir úr þeirra hópi hétu ævarandi andspyrnu við Samfylkinguna.

Nefnd að störfum

Eins og áður sagði ætlar ríkisstjórnin sér margháttaðar breytingar á samfélaginu. Ein þeirra er breytt fiskveiðistjórnun. Taka á aflaheimildir af útgerðum og endurráðstafa þeim með nýjum hætti. Þessi fyrirætlan hefur mætt feikilegri andstöðu innan þings og utan. Frumvarps er að vænta og ekki er að fullu ljóst hvort stjórnin ætlar að standa við stóru orðin í stjórnarsáttmálanum.

Breytt skattheimta - sem í sáttmálanum heitir að dreifa byrðunum með sanngirni, jöfnuð og réttlæti að leiðarljósi - hefur að sama skapi verið gagnrýnd harðlega.

En ríkisstjórnin hefur ekki aðeins mátt þola gríðarlega mótstöðu vegna aðgerða sinna eða áforma heldur líka vegna aðgerðarleysis. Það á ekki síst við um atvinnumálin en atvinnuleysi er ennþá stórkostlegt vandamál í samfélaginu og fátt hefur verið gert til að vinna á því bug svo nokkru nemi. Reyndar mun nefnd vera að störfum.

Icesave í höfn

Nokkur af höfuðmálum ríkisstjórnarinnar hafa reynt talsvert á hana og raunar samfélagið allt. Meðal fyrstu verka Steingríms J. Sigfússonar í fjármálaráðuneytinu var að leita leiða til að semja um Icesave-málið við Breta og Hollendinga og tók hann málið slíkum tökum að helst mátti halda að hann sjálfur bæri ábyrgð á þeim óskapnaði sem reikningarnir reyndust þegar allt kom til alls.

Í júní 2009 var „samkomulag um Icesave-skuldbindingarnar í höfn" samkvæmt frétt úr ráðuneytinu og í desember sama ár var, samkvæmt sömu fréttaveitu, „Icesave málið leitt til lykta". Raunin varð önnur. Fyrst sagði forsetinn nei og svo þjóðin og málið er enn til umfjöllunar á vettvangi Alþingis með, að því er virðist, meiri raunum fyrir Sjálfstæðisflokkinn en stjórnarflokkana.



Þung byrði

Líkt og Icesave hefur stjórnlagaþingsmálið fært okkur heim sanninn um að þótt þingmeirihluti sé fyrir máli er ekki þar með sagt að það komist á legg.

Þótt ráðherrar í ríkisstjórninni segist ekki bera ábyrgð á því klúðri sem varð þegar Hæstiréttur ógilti kosninguna til stjórnlagaþings og þurfi því hvorki að segja af sér né biðjast afsökunar er þetta engu að síður mál stjórnarinnar.

Frá fyrsta degi hefur stjórnlagaþing verið á dagskrá, eins og reyndar Framsóknarflokkurinn krafðist þegar hann bauðst til að verja 90 daga minnihlutastjórnina falli. Ríkisstjórn Jóhönnu mun þurfa að bera þann þunga kross sem ógildingin var. Hins vegar kann sá burður að verða léttari ef framhald málsins lukkast bærilega fyrir stjórnina, stjórnlagaþing verður haldið og tillögur þess um breytingar á stjórnarskránni verða í anda þess sem Jóhanna getur hugsað sér.

Sjaldgæft afbrigði

Margt er óvenjulegt við ríkisstjórnina sem nú starfar í samanburði við það sem Íslendingar hafa mátt venjast allra síðustu áratugi. Ber þar hæst hina innbyggðu stjórnarandstöðu stjórnarinnar, sem er sjaldgæft ríkisstjórnarafbrigði.

Stjórnarandstaða VG hefur birst skýrt og algjörlega ódulin í þremur málum. Fyrst þegar fimm þingmenn flokksins greiddu atkvæði gegn tillögunni um að Ísland sækti um aðild að ESB. Sú atkvæðaráðstöfun kom nokkuð á óvart þrátt fyrir að almenn andstaða í flokknum við aðild væri kunn. Í stjórnarsáttmálanum segir að flokkarnir virði ólíkar áherslur hvors um sig gagnvart aðild. Áður segir hins vegar að tillaga um aðildarumsókn verði lögð fyrir þingið og að stuðningur stjórnvalda við samning verði háður ýmsum fyrirvörum. Höfundar stjórnarsáttmálans reiknuðu sem sagt með samþykki tillögunnar og að viðræðum lyki með samningi. Þeir bjuggust hins vegar ekki við að þurfa að stóla á atkvæði þingmanna utan stjórnarflokkanna til að fá hana samþykkta.





Ögmundur út

Næst birtist stjórnarandstaða VG almenningi þegar Ögmundur Jónasson hætti í ríkisstjórninni (var rekinn að eigin sögn) haustið 2009 vegna Icesave. Hann taldi málið ómögulegt og greiddi atkvæði á móti. Það gerði líka Lilja Mósesdóttir.

Dramatískasta uppákoman af þessu tagi var svo hjáseta Lilju, Atla Gíslasonar og Ásmundar Einars Daðasonar við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins í síðastliðnum desember. Hún olli gríðarlegri óánægju í forystu VG sem og innan Samfylkingarinnar. Skeytin gengu á milli og blásið var til neyðarfunda. Formleg sátt hefur ekki tekist en menn reynt að gleyma eða alla vega hugsa um eitthvað annað. Og það er svo sem um nóg að hugsa.





Lætin vegna Magma

Í ofangreindum málum hefur ágreiningurinn verið bundinn við VG. En stjórnarflokkana greinir líka á um sum mál. Þar fer mest fyrir Magma-málinu og eins og á við um svo margt annað er það ekki úr sögunni.

Þegar spurðist að kanadískur maður hefði eignaðist HS Orku í gegnum sænskt skúffufélag ætlaði allt um koll að keyra í VG. Þingflokksformaðurinn Guðfríður Lilja Grétarsdóttir sagði að ríkisstjórnin skyldi vinda ofan af viðskiptunum eða hafa verra af. Stuðningur hennar við stjórnina væri í húfi. Og hún var ekki ein um þetta, Þuríður Backman tók til dæmis í sama streng. Ríkisstjórnin brást við með því að skipa nefnd, svo aðra og gott ef ekki þá þriðju. Og þótt stjórnarforingjarnir hafi um daginn sungið með Björk og hinum sem krefja þjóðnýtingar á HS Orku er málið nú þannig statt að reyna á eins og tvennt eða þrennt áður en til eignarnáms kann að koma.





Veikur grunnur

ESB-málið, sem er Samfylkingunni mikið hjartans mál, er ein erfiðasta glíman sem íslensk stjórnmál hafa tekið í langan tíma. Hún hófst fyrir alvöru sumarið 2009 þegar aðildarumsóknin var samþykkt og stendur næstu tvö ár að minnsta kosti. Naumur meirihluti var fyrir málinu í þinginu og fimm stjórnarþingmenn voru á móti. Einn þeirra, Ásmundur Einar, er formaður Nei-hreyfingarinnar. Sá ráðherra sem fer með viðkvæmustu samningsefnin; sjávarútvegs- og landbúnaðarmál, Jón Bjarnason, er eindreginn andstæðingur aðildar.

Öflug hagsmunasamtök, svo sem LÍÚ og Bændasamtökin, leggjast gegn aðild. Fólk beggja vegna víglínunnar er fyrir löngu komið ofan í skotgrafirnar og mundar þar penna sína. Líklega hefur engin ríkisstjórn þjóðar í aðildarviðræðum við ESB mætt til þeirra á jafn veikum grunni og sú íslenska. En Össur Skarphéðinsson lætur ekki deigan síga og spyr að leikslokum.





Góð þróun efnahagsmálaÞað má ekki vera bara leiðinlegur í afmælum. Og engin ástæða til þegar farið er yfir ástand og árangur á tveggja ára forsætisráðherratíð Jóhönnu Sigurðardóttur.

Mikilvægustu mál hverrar þjóðar eru efnahags- og ríkisfjármál. Á þeim grundvallast flest annað. Verðbólga og vextir eru nú á góðu róli, gengið hefur styrkst, viðskiptin við útlönd eru í góðum plús og halli ríkissjóðs fer minnkandi. Á tímum gríðarlegs samdráttar í ríkistekjum hefur stjórnin einsett sér að standa vörð um velferðarkerfið. Staðan mætti vissulega vera miklu betri en hún gæti hæglega verið miklu verri. Það er jú úr miklu minna að spila en áður.



Góðu hljóðu málin

Stjórnmál eru ekki bara stóru málin sem komast á forsíðurnar. Þau snúast líka um málaflokka sem ekki er talað um með upphrópunum í þinginu eða þykja þess verð að málsvörum andstæðra sjónarmiða sé att saman í Kastljósinu.

Í samstarfsyfirlýsingu Samfylkingarinnar og VG eru mörg mál af því taginu. Til dæmis á að endurmóta námskrá fyrir öll skólastig, meðal annars með það að markmiði að efla skapandi og gagnrýna hugsun og efla lýðræðisvitund. Það á að móta menningarstefnu til framtíðar. Það á að móta sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og lífsgæðum til framtíðar. Ráðast á í markaðssókn erlendis á sviði lista, menningar, hönnunar og hugvitsgreina. Leggja áherslu á endurvinnslu og endurnýtingu. Kortleggja og auka menntun og fræðslu í sjávarútvegi. Það á að styrkja stöðu náttúruverndar innan stjórnarráðsins.

Það á að tryggja vernd líffræðilegrar fjölbreytni vistkerfa. Það á að tryggja að erfðabreytt matvæli séu merkt. Það á að móta heildstæða orkustefnu sem miði að því að endurnýjanlegir orkugjafar leysi innflutta orku af hólmi. Það á að gera áætlun um orkusparnað. Svona svo eitthvað sé nefnt.

Það á líka að útrýma kynbundnum launamun og kynbundnu ofbeldi. Þessi mál eru mislangt á veg komin.





Vinalaus

Ríkisstjórnir Jóhönnu Sigurðardóttur hafa starfað við erfiðustu aðstæður sem ríkt hafa í landinu í áratugi. Allt þjóðlífið hefur borið þess merki. Þess vegna hefur margt verið öðruvísi en venjulega. Ríkisstjórnin á sér til dæmis fáa ef nokkra vini. Atvinnurekendur og launþegahreyfingarnar eru utanveltu. Þessi batterí sem svo lengi gátu beðið um tilteknar aðgerðir án þess að þurfa að berja í borð. Hvorugur aðilinn gengur nú óboðinn inn í Stjórnarráðshúsið við Lækjargötu.

Skorið hefur verið á beinu símalínurnar til leiðtoga annarra ríkja. Ríkisstjórnin getur ekki reitt sig á greiða í útlöndum.

Það sem skrifað er um ríkisstjórnina í blöð eða á bloggi er fæst henni í vil. Þeir sem hringja í útvarpið lýsa flestir frati á ráðherrana og stjórnmálamennina almennt.

En þátttaka í pólitík er val og Jóhanna og þau hin eru þarna af fúsum og frjálsum vilja. Og eins og strákarnir okkar eru þau að reyna að gera sitt besta.

Öðru verður ekki trúað.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×