Innlent

Formlegum viðræðum slitið - atkvæðagreiðsla á morgun

„Það fer fram atkvæðagreiðsla á morgun, við metum það þannig að þeir hafi engan vilja til að semja, það er það sem okkur finnst vera koma út úr þessu," segir Sverrir Mar Albertsson í samninganefnd starfsmanna í loðnubræðslu.

Ekki náðist samkomulag á fundi Samninganefnda bræðslumanna og Samtaka Atvinnulífsins með ríkissáttasemjara í dag en fundinum lauk á fjórða tímanum og hefur samningaviðræðum verið formlega slitið.

Annar fundur hefur ekki verið boðaður og segir Ragnar Árnason, formaður samninganefndar Samtaka atvinnulífsins, í samtali við fréttastofu að samninganefndirnar yrðu í sambandi næstu daga.

Samtök atvinnulífsins höfnuðu kröfu bræðslumanna á fundi með ríkissáttasemjara í gær.

Samninganefnd AFLs og Drífanda samþykkti á fundi sínum fyrr í dag að boða til atkvæðagreiðslu meðal starfsmanna fiskimjölsverksmiðja um vinnustöðvun á morgun.

Í tilkynningu frá samninganefnd bræðslumanna segir að lagt hafi verið tilboð fyrir Samtök Atvinnulífsins í gær þar sem launakröfum bræðslumanna hafi verið verulega stillt í hóf miðað við fyrri kröfugerð og það hafi verið gert meðal annars til að freista þess að ná samningum án þvingunaraðgerða.

Í tilkynningunni segir ennfremur að ætlan Samtaka Atvinnulífsins sé að skapa óróa og átök á vinnumarkaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×