Erlent

Mótmælt um öll Mið-Austurlönd í dag

Að minnsta kosti fimm hafa fallið í Írak í dag þar sem þúsundir manna hafa hópast út á götur til þess að mótmæla bágum kjörum almennings í landinu. Höfuðborginni Bagdad hefur í raun verið lokað en yfirvöld hafa bannað alla umferð um miðbæinn og þúsundir hermanna eru á götum úti.

Mörg hundruð manns eru þó saman komin á Tahrir torginu í Bagdad þar sem umbóta er krafist. Fjöldamótmæli hafa einnig haldið áfram víða um miðausturlönd í dag.

Í Líbíu segja sjónarvottar að stjórnarhermenn hafi skotið á mótmælendur í Trípólí. Í Yemen hefur verið metþáttaka í mótmælum í höfuðborginni og þúsundir Egypta sneru aftur á frelsistorgið í Kaíró í dag til þess að minnast þess að tvær vikur eru nú frá því Mubarak forseti sagði af sér.

Þá hafa tugir þúsunda komið saman í Bahrain í dag til þess að minnast þeirra sem látist hafa í mótmælum síðustu daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×