Erlent

Skáru fótinn af með svissneskum hníf

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hnífur, áþekkur þeim sem var notaður við aðgerðina.
Hnífur, áþekkur þeim sem var notaður við aðgerðina.
Læknir þurfti að beita svissneskum vasahníf og sög til þess að fjarlæga fót af manni sem hafði fest sig í byggingu í Christchurch skjálftanum sem reið yfir á Nýja-Sjálandi fyrr í vikunni. Læknirinn Stuart Philip sagði eftir aðgerðina að tveir kostir hafi verið í stöðunni; að taka fótinn af manninum eða skilja hann eftir til að deyja.

Philip rakst á manninn eftir að hann hafði reynt að klifra í fimm tíma í gegnum svokallaða Pyne Gould byggingu. Hann hætti lífi sínu til þess að bjarga öðrum. Ekki var hægt að lyfta þungu fargi af manninum sem hafði fest fótinn og því varð að skera hann af. „Aðgerðin var að mestu leyti gerð með svissneskum vasahníf. Svo kom smiður með sög. Ég veit að þetta hljómar skelfilega en þetta er það eina sem við höfðum," segir Philip í samtali við útvarpsstöðina 3AW. Annar ástralskur læknir kom að aðgerðinni. Hún varð fyrir verulegu áfalli og þurfti að fara strax til baka til Ástralíu til að jafna sig eftir ósköpin.

Philip segir að maðurinn sem missti fótinn hafi verið með meðvitund þegar aðgerðin var gerð. Hann fékk deyfilyf fyrir aðgerðina, en mun samt hafa þjáðst gríðarlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×