Innlent

Ekki merki um eitrunaráhrif í mjólk og kjöti

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Frumathuganir benda ekki til þess að mjólk og kjöt hafi mengast. Mynd/ GVA.
Frumathuganir benda ekki til þess að mjólk og kjöt hafi mengast. Mynd/ GVA.
Frumathuganir á díóxinmengun í mjólk og kjöti í Skutulsfirði, nálægum fjörðum og á Svínafelli benda ekki til þess að eitrunaráhrif í þessum vörum séu merkjanleg. Haldinn var fundur í samstarfsnefnd um sóttvarnir í gær þar sem rætt var um nýlegar mælingar á díoxínmengun í mjólk og kjöti. Fundinn sátu fulltrúar Matvælastofnunar, Sóttvarnalæknis og Umhverfisstofnunar. Einnig komu á fundinn sérfræðingar í eiturefnafræðum.

Þrátt fyrir að frumathuganir bendi ekki til merkjanlegra eitrunaráhrifa samkvæmt upplýsingum sóttvarnalæknis mun sóttvarnalæknir standa að rannsóknum á fólki til að ganga úr skugga um hvort díoxín hafi borist í fólk og þá í hvaða magni. Nánar verður greint frá því hvernig rannsóknum verður háttað á næstu dögum og þær gerðar eins fljótt og auðið er, að því er fram kemur á vef landlæknis.

Sóttvarnarlæknir segir að talið sé mjög ólíklegt að það kjöt og mjólk sem hugsanlega hafi verið yfir mörkum á díoxíni og fór á markað hafi heilsufarsáhrif á fólk. Mælingar bendi til að lítill hluti af sex hálfu tonni af kjöti sem fór á markaði hafi verið yfir mörkum, af þeim fóru fimm tonn af kjöti til útflutnings en eitt og hálft tonn hafi farið ferskt á innanlandsmarkað og sennilega ekkert af því lengur á markaði. Matvælastofnun vinni að því að kanna hvert kjötið fór og taka það af markaði ef enn sé eitthvað í dreifingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×