Innlent

Hár- og blóðsýni skimuð við leit að díoxínmengun í fólki

Sorpbrennslan í Skutulsfirði.
Sorpbrennslan í Skutulsfirði.

Sóttvarnalæknir hefur ákveðið að gera sérstaka heilsufarsrannsókn á íbúum þriggja sveitarfélaga vegna díoxín­mengunar frá sorpbrennslum. Viðlíka rannsókn hefur aldrei verið gerð áður hér á landi.

Þetta var niðurstaða fundar vinnuhóps sem sóttvarnalæknir kemur að auk fulltrúa Umhverfis- og matvælastofnunar vegna mengunar frá sorpbrennslum. Fundað var í gær til að meta hvernig bregðast skyldi við niðurstöðum nýjustu mælinga þar sem díoxín greindist í töluverðu magni í kjöti, mjólk og fóðri hjá bændum í nálægð við sorpbrennsluna Funa á Ísafirði.

Eins og Fréttablaðið greindi fyrst frá í janúar mældist díoxín tuttugu­falt yfir viðmiðunarmörkum hjá Funa árið 2007. Mælingar í sorpbrennslunni á Kirkjubæjarklaustri á sama tíma sýndu díoxín 95-falt yfir mörkum og frá sorp­brennslunni í Vestmannaeyjum mældist 84 sinnum meira díoxín en viðmiðunar­mörk gera ráð fyrir.

Haraldur Briem sóttvarnalæknir segir að ráðist verði í heilsufarsrannsóknina til að hægt verði að fá úr því skorið í eitt skipti fyrir öll hvort fólk hafi orðið fyrir mengun frá sorpbrennslunum. „Framkvæmdin liggur ekki fyrir í smá­atriðum en þetta verður gert í samráði við vísindamenn við Háskóla Íslands. Við erum að skipuleggja hvernig sýnin úr fólkinu verða tekin."

Haraldur segir að ekki þurfi endilega að koma til þess að tekin verði vefjasýni úr íbúum. „Hægt er að taka blóð- og hársýni auk þess sem það má sjá þetta í brjóstamjólk. Það er hægt að kanna þetta frá ýmsum hliðum og því vonumst við til þess að fá góða mynd af raunverulegri útbreiðslu díoxíns í fólki." Haraldur segir ekki liggja fyrir til hversu margra rannsóknin muni ná. Fyrst verði teknar prufur úr völdum hópum og framhaldið síðan metið.

Haraldur ítrekar að hann eigi ekki von á að fólk hafi orðið fyrir heilsutjóni af völdum mengunarinnar. Hins vegar snúi rannsóknin, sem á sér enga hliðstæðu hér á landi, að því mikilvæga atriði að leita upplýsinga um hvað gerðist í sveitar­félögunum þremur. Rannsóknin falli inn í allsherjarúttekt þar sem Matvælastofnun muni meðal annars gera sérstaka rannsókn á jarðvegi í nágrenni við sorpbrennslurnar.

Enn er sorp brennt á skólatíma í brennslustöðinni á Kirkjubæjarklaustri, sem er sambyggð grunnskólanum og sundlauginni á staðnum. Sveitarstjórinn Eygló Kristjánsdóttir kvaðst í gærkvöldi ekki geta svarað því hvort þessar nýjustu fréttir hefðu áhrif á fyrirkomulagið. Hún væri nýbúin að frétta af málinu og væri ekki í vinnunni. „Það verður sjálfsagt skoðað á morgun. En það hefur svo sem ekkert breyst hjá okkur við þetta. Ég veit ekki hvað stjórnin vill gera í ljósi aðstæðna og ætla ekki að ákveða það." - shá






Fleiri fréttir

Sjá meira


×