Erlent

Kínverjar elska fílabein - stofninn í hættu

Aukin velmegun Kínverja gæti verið að ógna framtíð fílsins hér á jörðu. Kínverjar eru margir hverjir sólgnir í fílabein og í nýrri heimildamynd Sky fréttastofunnar er hulunni svipt af því hvernig veiðiþjófar í Afríku hafa stóraukið fílaveiðar á síðustu árum.

Í myndinni er rætt við kínverskan fílabeinskaupmann sem sýnir fréttamanninum þrjú pör af fílstönnum sem kosta fjörutíu þúsund pund, eða um 7 og hálfa milljón króna. Alheimsbann er á sölu fílabeins en umhverfissamtök segja að á síðustu árum hafi fílaveiðar stóraukist og er eftirspurninni frá Kína helst um að kenna.

Einn fílabeinskaupmaður í Afríku fullyrðir að hann hafi einu sinni selt þrjú tonn af fílabeini í einu til kínverskrar sendinefndar sem hafi verið á vegum þarlendra stjórnvalda, að því er fram kemur á SKY. Þá fundu tollverðir í Hong Kong tæplega fjögur hundruð fílstennur í gámi sem kom frá Tansaníu á síðasta ári. Í Kína eru styttur skornar úr fílabeini eitt helsta stöðutáknið sem nýríkir geta státað af.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×