Innlent

„Loðnubrestur af mannavöldum“

Loðnuvertíð Verkalýðsfélögin vilja að félags­menn sínir njóti góðs af tekjuauka sjávar­útvegsins vegna lágs gengis krónunnar.
Loðnuvertíð Verkalýðsfélögin vilja að félags­menn sínir njóti góðs af tekjuauka sjávar­útvegsins vegna lágs gengis krónunnar.
Boðað hefur verið ótímabundið verkfall í nær öllum loðnubræðslum landsins frá næsta þriðjudagskvöldi. Þrjú verkalýðsfélög samþykktu verkfallsboðun í gær með meginþorra atkvæða.

Ríkissáttasemjari hefur boðað deilendur til fundar á fimmtudag.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir að til að „skemma ekki komandi loðnuvertíð“ hafi félagið boðist til að framlengja gildandi samning til 1. maí gegn 250-300.000 króna eingreiðslu til hvers starfsmanns. Tilboðinu var hafnað. „Ég skynjaði jákvætt viðhorf frá forsvarsmönnum fyrirtækisins en það eru Samtök atvinnulífsins sem stjórna ferðinni,“ segir Vilhjálmur. „Það var slegið fast á útrétta hönd.“ Það hefði kostað um þrjár milljónir króna að samþykkja þessa leið til að koma í veg fyrir verkfallið á Akranesi.

Sverrir Albertsson, formaður Afls – starfsgreinafélags á Austurlandi, segist hafa boðið samning til eins árs með 20.000 króna taxtahækkun. Því hafi verið hafnað.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, segir verkalýðsfélögin sýna algjört ábyrgðarleysi. Þau muni framkalla loðnubrest af mannavöldum. „Þetta eru níutíu manns,“ segir hann. „Við ætlum ekki að láta eftir kröfum um umframhækkanir og framkalla verðbólgu hér á Íslandi. Þessir menn eru að valda samstarfsfólki sínu í viðkomandi fyrirtækjum miklu tjóni; fyrirtækjunum sjálfum og samfélaginu öllu.“ - pg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×