Innlent

Þurfum að þrífa upp eftir okkur sjálf og jafnvel næsta mann

Rusl í borginni.
Rusl í borginni.
„Umgengni Íslendinga um helgar eru líklega einsdæmi í heiminum," segir Jakob Frímann Magnússon, miðborgarstjóri, spurður út í umgengni í miðborginni, en ljósmyndari fréttastofu, Pjetur Sigurðsson, tók meðfylgjandi myndir í miðborginni í dag.

Þar má sjá pappadisk inn í runna, plastgaffal á stéttinni og glerbrot á víð og dreif.

Jakob segir tugir manna vinna við það eitt að hreinsa til í miðborginni eftir helgar en nú hafi vikan lengst með betra veðri, „og því er gleðskapurinn farinn að lengjast," segir Jakob.

Jakob Frímann Magnússon, miðborgarstjóri.
Hann bendir á að borgin sé búin að skera mikið niður framlög til hreinsunar og skyldrar grunnþjónustu. Hann hvetur því borgarbúa til þess að ganga betur um.

„Það þarf ekki meira en einn sóða sem skilur eftir sig rusl. Nú þurfum við borgarbúar að stilla okkur saman á meðan við förum í gegnum efnahagsþrengingar og þrífa upp eftir okkur. Og jafnvel náungann sem er ekki jafn vel upp alinn og við hin," segir Jakob en starfsmenn borgarinnar hafa undanfarið þrifið Austurstrætið með háþrýstidælum til þess að ná tyggjóklessum af stéttinni.

„Gatan var eiginlega orðin hvít," segir Jakob sem hvetur fólk til þess að henda tyggjóinu frekar í ruslið, enda er það ekki ókeypis að þrífa klessurnar upp.

„Hingað til hefur Reykjavík verið nokkurskonar baðmullarborg sem hefur búið við súperþjónustu. Svo er ekki lengur," segir Jakob og bætir við: „Við þurfum að taka okkur taki svo borgin breytist ekki í öskuhaug."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×