Innlent

Koma sprengjuárgangnum fyrir

Menntaráði var vandi á höndum í ár en von er á sprengjuárgangi í haust.
Menntaráði var vandi á höndum í ár en von er á sprengjuárgangi í haust.
Útlit var fyrir að leikskólar Reykjavíkurborgar stæðu frammi fyrir plássleysi í haust. Ástæðan er sú að um 300 fleiri leikskólabörn eru í þeim árgangi sem nú er að koma inn í leikskólana en í þeim sem fer þaðan. Tekist hefur þó að ráða fram úr þessum vanda að sögn Oddnýjar Sturludóttur, formanns menntaráðs.

„Það varð að leggja heillangan kapal til að láta þetta ganga upp,“ segir hún. „Við settum aukinn kraft í byggingu Norðlingaskóla og Sæmundarskóla og þá var hægt að flytja þangað inn skólahald sem farið hafði fram í færanlegum húsum. Þá gátum við fært þau hús á leikskólalóðir og nýtt þau þar fyrir leikskólana. En svo erum við líka að leigja dagforeldrum húsnæði sem áður var nýtt undir skólagarðana. En þetta dugði ekki til þannig að við gripum líka til þess ráðs að endurskipuleggja skólana okkar þannig að frístundastarfið geti komið þangað inn og þá losnar enn meira húsnæði.“

Á góðærisárinu 2005 fæddust 1.554 börn í Reykjavík en árið 2009 voru þau 1.855. Oddný segir að næsti árgangur sem hefur skólagöngu sína hjá leikskólum Reykjavíkurborgar sé álíka fjölmennur og sá sem nú hefur sína leikskólagöngu. - jse




Fleiri fréttir

Sjá meira


×