Fótbolti

Björn Bergmann og Veigar orðaðir við Rosenborg

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Björn Bergmann í leik með íslenska U-21 liðinu.
Björn Bergmann í leik með íslenska U-21 liðinu. Mynd/Anton
Íslensku sóknarmennirnir Björn Bergmann Sigurðarson og Veigar Páll Gunnarsson hafa báðir verið orðaðir við Rosenborg í Norgi, þar sem báðir leika fyrir.

Fótbolti.net hefur greint frá þessu en norskir fjölmiðlar hafa einnig fjallað um áhuga Rosenborg á Veigari Páli. „Ég hef heyrt af þessu líka,“ sagði Veigar Páll við Budstikka.no og bætti við að hann hefði þó ekkert heyrt af meintum áhuga frá félagi hans, Stabæk, eða Rosenborg.

„Sögusagnir eru fljótar að fara á kreik og hef ég ekki mikinn áhuga á að tjá mig um þetta. En allir vita að ég elska félagið mitt,“ sagði Veigar Páll en Inge Andre Olsen, yfirmaður íþróttamála hjá Stabæk, segir að allir leikmenn séu til sölu fyrir rétt verð.

Fótbolti.net hefur eftir eigin heimildum að Rosenborg hafi áhuga á Birni Bergmanni sem hefur staðið sig vel með Lilleström í vor. Hann kom einnig við sögu í tveimur leikjum U-21 liðsins á EM í Danmörku og stóð sig vel þær mínútur sem hann spilaði.

Björn Bergmann hefur einnig verið orðaður við önnur lið víða um Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×