Innlent

Hættu við verkfall vegna samstöðubrests

Sverrir Mar Albertsson
Sverrir Mar Albertsson

Ekkert varð af verkfalli í loðnubræðslum sem hefjast átti í gærkvöldi. Ástæðurnar eru nokkrar, að sögn Sverris Mars Albertssonar, framkvæmdastjóra Afls á Austurlandi.

Í fyrsta lagi náðist ekki samstaða meðal starfsmanna í öllum loðnubræðslum landsins. Til stóð að halda áfram bræðslu á Þórshöfn og hefja bræðslu í Helguvík og það hefði svipt aðgerðirnar slagkraftinum. Þá var óvíst hvort Færeyingar myndu áfram vinna loðnu, þótt verkalýðsfélög þar hefðu lýst yfir stuðningi við verkfallsaðgerðirnar. Að auki hafi fyrirtæki verið að verða kvótalaus.

„Síðast en ekki síst mátum við það svo að Samtök atvinnulífsins (SA)væru tilbúin að láta okkur vera í verkfalli mánuðum saman,“ segir Sverrir. Ekkert eitt atriði hafi ráðið úrslitum en í sameiningu hafi þau gert samningsstöðuna mjög slæma.

Sverrir segir ljóst að SA hafi ekki ætlað að gefa neitt eftir. „Og ef þeir hefðu ákveðið að fórna þessari loðnuvertíð þá hefðu þeir getað látið okkur hanga í verkfalli fram á haust.“

Sverrir segir að áfram verði reynt að semja, án verkfallsvopnsins, en líklega verði ekki samið fyrr en við gerð aðalkjarasamninga. Næsti fundur verði líkast til í næstu viku.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir þetta svartan dag fyrir íslenska launþega. „Mér finnst dapurlegt að menn hafi ekki staðið í lappirnar og fylgt þessu eftir,“ segir hann. Alþýðusambandið og SA hafi meitlað í stein samræmda launastefnu sem setji alla Íslendinga í „sama láglaunavagninn“. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×