Innlent

„Bjarni Ben stjórnar Sjálfstæðisflokknum í dag“

Almannatengill segir Bjarna Benediktsson hafa styrkt stöðu sína sem formaður Sjálfstæðisflokksins með því að hafa tekið ákvörðun gegn gömlu valdaklíkunni í flokknum. Ljóst sé nú, að það sé formaðurinn sem þar ráði ríkjum.

Andrés Jónsson starfar sem almannatengill en hann hefur einnig gegnt trúnaðarstörfum fyrir Samfylkinguna. Hann segir að með ákvörðun sinni í Icesavemálinu hafi Bjarni sýnt að það sé hann sem stjórni flokknum, og það hafi verið sterkt að boða til fundar með flokksmönnum í gær.

En var Bjarni að fara gegn gömlu valdaklíku flokksins með ákvörðun sinni?

„Ég held að það sé ekki markmiðið í sjálfu sér, ég held að þetta sé hans raunverulega skoðun og hans afstaða um Icesave. Það skiptir miklu máli að vera sá sem stjórnar flokknum en ekki sá sem flokkurinn stjórnar, þannig var það með Davíð (Oddsson) og nú með Bjarna," segir Andrés.

Bjarni hefur einnig verið gagnrýndur fyrir það að pólitískir andstæðingar hans séu ánægðir með afstöðu hans í málinu. Davíð Oddsson hefur meðal annars sagt hann vikapilt Steingríms J. Sigfússonar. Andrés segir það oft merki þess að menn séu komnir á hálann ís þegar andstæðingarnir eru ánægðir með mann.

„Ég held að í þessu tilfelli sé það ekki, ég held að þórðargleði í garð Davíðs stjórni ekki því í Sjálfstæðisflokknum."

Þannig gamla valdaklíkan stjórnar ekki Sjálfstæðisflokknum?

„Ég held að það sé ljóst að Bjarni Ben stjórnar Sjálfstæðisflokknum í dag," segir Andrés að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×