Innlent

Konstantín II. til Íslands í dag

Konstantín II. Missti konungstitil sinn þegar gríska ríkið lagði niður konung­dæmið árið 1973. Nordicphotos/AFP
Konstantín II. Missti konungstitil sinn þegar gríska ríkið lagði niður konung­dæmið árið 1973. Nordicphotos/AFP
Konstantín II., landlaus konungur Grikklands, kemur til Íslands í dag og dvelur fram yfir helgi. Hann sækir hér stjórnarfund Alþjóðasiglingasambandsins sem fram fer í Reykjavík um helgina.

Konstantín II. er heiðursforseti sambandsins ásamt Haraldi Noregskonungi og sinnir því starfi af mikilli kostgæfni. Hefur hann stundað íþróttina í fjöldamörg ár og vann meðal annars gullverðlaun á Ólympíuleikunum í Róm árið 1960.

Að sögn Úlfs Hróbjartssonar, formanns Siglingasambands Íslands, er mikill fengur fyrir íþróttina að fá konunginn fyrrverandi og stjórnarfund Alþjóðasambandsins hingað til lands.

Stjórnarfundir sambandsins eru haldnir tvisvar á ári og sækja um 20 manns fundinn. „Markmiðið er að fá aðalfundinn hingað einhvern daginn, það er um 200 til 300 manna ráðstefna,“ segir Úlfur.

Spurður hvort koma Konstantíns II. verði lyftistöng fyrir ástundun siglinga á Íslandi segir Úlfur að óneitanlega sé frábært að til skuli vera fólk sem gefi sinn tíma í það að sinna íþróttinni og öllu því starfi sem fylgi uppbyggingu hennar. „Konstantín ann siglingum og er enn að keppa og sinna íþróttinni og er það mikill fengur.“- kag



Fleiri fréttir

Sjá meira


×