Erlent

Grípa til aðgerða til að stöðva blóðbaðið

Muammar Gaddafi leiðtogi Líbýu. Mynd/Getty
Muammar Gaddafi leiðtogi Líbýu. Mynd/Getty
Yfirvöld á Vesturlöndum hafa gefið í skyn að það komi til greina að grípa til aðgerða til að stöðva blóðbaðið í Líbýu. Enn berjast uppreisnarmenn og herlið ríkisstjórnarinnar um yfirráð yfir lykilborgum í Líbýu.

Þær fregnir bárust frá átakasvæðum í Líbýu í gærkvöld að uppreisnarmenn héldu velli í olíuhöfninni Ras Lanuf eftir harða bardaga við herlið ríkisstjórnarinnar. Uppreisnarmenn stjórna nú öllum stærstu borgum austantil í landinu. Í höfuðborginni Trípóli eru opinberar öryggissveitir sagðar hafa beitt táragasi og skotið viðvörunarskotum til að dreifa mannfjölda við mosku áður en komið gæti til mótmæla. Ríkissjónvarp Libýu birti í gær myndir af fögnuði stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar, þar sem þeir höfðu barið niður uppreisn í bænum Zawiyah vestan við höfuðborgina.

Erlendir fjölmiðlar fullyrða að fjöldi uppreisnarmanna kalli nú eftir aðgerðum alþjóðasamfélagsins til að stöðva blóðbaðið í landinu, sem hófst með hörðum mótmælum gegn einræðisherranum Moammar Gaddafí. Þeir vona að vestræn ríki komi á flugbanni yfir Libýu til að stöðva loftárásir ríkisstjórnarinnar á mótmælendur og uppreisnarmenn.

Leiðtogar Evrópusambandsins samþykktu að leita allra hugsanlegra leiða til að vernda saklausa borgara í Libýu, en minntust ekki sérstaklega á flugbann eftir fundahöld í Brussel í gær. Leiðtogar Bretlands og Frakklands eru sagðir hafa eindregnari vilja til að grípa til harðra aðgerða á borð við flugbann en aðrar Evrópusambandsþjóðir. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagðist hins vegar efast stórlega um hernaðarleg inngrip í Libýu.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, kvað jafnvel enn fastar að orði og fullyrti að alþjóðasamfélaginu bæri skylda til að stöðva blóðbaðið í Libýu, og það megi ekki breytast í aðrar eins hörmungar og áttu sér stað í Rúanda og Bosníu á tíunda áratugnum. Hann sagði að snaran væri að þrengjast um háls Gaddafís,  og að engir kostir hefðu verið slegnir af borðinu á þessari stundu. Obama sagði bestu niðurstöðuna skýra í sínum huga; að Gaddafí fari frá völdum. Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, tók í sama streng og fullyrti að Gaddafi yrði að fara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×