Innlent

Óæskilegt að olíulind fái nafn sem tengist Íslandi

Norska málnefndin hefur mælst til þess að Statoil hætti að nota heitið Katla um nýja olíulind. Nefndinni þykir óæskilegt að nota nafn sem tengist Íslandi.

Olíulindin er í Noregshafi um 140 kílómetra vestur af Bergen og fannst árið 2009. Statoil gaf svæðinu heitið Katla fyrir tveimur árum og er að hefja þar hundrað milljarða króna uppbyggingu. Olía- og gasvinnsla á að hefjast eftir tvö ár en talið er Kötlusvæðið geti skilað 80 milljónum tunna. Önnur vinnslusvæði í grennd við Kötlu, samkvæmt korti Statoil, eru Frigg, Oseberg, Brage, Veslefrikk, Troll og Huldra.

Nú hefur norska málnefndin hins vegar gripið inn í málið og gert athugasemd við það að nafnið Katla skuli notað, að því er fram kemur á fréttavefnum Offshore.no. Ástæðan er sögð sú að nafnið þyki of íslenskt.

Í bréfi norsku málnefndarinnar til Olíustofnunar Noregs segir að það sé óæskilegt og geti skapað vandamál að velja nafn sem hafi beina tengingu við Ísland. Það er þó ekki útskýrt hversvegna. Leggur málnefndin til að Statoil velji svæðinu annað nafn.

Mörg nöfn á norsku olíusvæðunum eru sótt í norrænan sagnaarf, eins og Snorre, Edda, Vigdis, Embla, Gyda, Frigg, Gudrun og Sleipner, og spurning hvort sum þeirra eigi ekki rætur á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×