Enski boltinn

Tevez tilbúinn að taka á sig mikla launalækkun hjá AC Milan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez.
Carlos Tevez. Mynd/Nordic Photos/Getty
Guardian segir frá því að Carlos Tevez og AC Milan séu búin að komast að samkomulagi um lánsamning og nú er það bara undir Manchester City komið hvort að Tevez verði lánaður til ítölsku meistarana.

Manchester City vill helst selja argentínska framherjann sem hefur verið í felum í Argentínu síðustu vikur en Tevez hefur ekki æft eða spilað með liðinu síðan að hann neitaði að hita upp fyrir Meistaradeildarleik á móti Bayern Müncehn í september. AC Milan vill hinsvegar bara fá hann á láni.

„Ég vona að City samþykki okkar tilboð," sagði Adriano Galliani, varaformaður AC Milan, við Guardian.

Corriere dello Sport hefur greint frá því að Tevez sé búinn að samþykkja það að fá "aðeins" 3,4 milljónir punda fyrir þetta tímabil en sú upphæð gæti farið upp í 4,3 milljónir á ári á næstu þremur tímabilum. Þetta er aðeins helmingur þess sem hann fær borgað samkvæmt núverandi samningi hans hjá City.

„Hann er að gefa eftir fjall af peningum. Hann er frábær leikmaður sem er ekki að spila. Tevez vill koma til okkar og við erum að bíða eftir svari frá City," sagði Galliani.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×